Strandapósturinn - 01.06.1992, Page 75
Eftir að hafa skoðað sjúklinginn vandlega segir læknirinn að
Sigurður sé með taugaveikina. Nú fór að fara um mannskapinn.
Læknirinn skipar svo fyrir að Þambárvallaheimilið skuli sett í
sóttkví í 9 vikur og að stúlkan sem stundi sjúklinginn megi alls ekki
vera við neina matargerð.
Ólöf, húsmóðir mín, setti mig í þetta vandasama verk. Ég var
óvön öllu slíku og vissi lítið hvað ég var að taka að mér og óaði við
þessu. En auðvitað hlýddi ég þegjandi og hljóðalaust. Karl læknir
ráðlagði mér að vera í öðrum fötum inni hjá sjúklingnum og
sótthreinsa mig úr lýsóli hvað lítið sem ég snerti hjá honum.
Næturgagn hans yrði ég að losa í rennandi vatn. Það vildi svo vel
til, að það rann lækur rétt sunnanvert við húsið.
Kristján minn blessaður, áminnti mig oft að fara nákvæmlega
eftir þeirn reglum sem læknirinn setti. Þess þurfti nú ekki. Þó að
ég segi sjálf frá, þá var ég samviskusöm og hafði vanist þrifnaði,
sem kom sér vel í þessu tilfelli. Hvernig sem veður var fór ég alltaf
út með næturgagnið og losaði í lækinn. Og hverju sem það er að
þakka þá smitaðist enginn, hvorki ég né aðrir.
Mig langar til að segja frá því, að ég átti afmæli 5. janúar á
meðan Sigurður póstur var hjá okkur á Þambárvöllum. Kvöldið
áður hafði ég sagt honum að á morgun ætti ég afmæli. Jæja, næsta
morgun er ég kom inn til Sigurðar, þá rétti hann mér tveggja
krónu pening í afmælisgjöf. Maður átti nú ekki mikið af pening-
um í þá daga og mér fannst þessi peningur svo glóandi fagur og
skínandi. Ég var rnjög glöð og tók þetta sem þakklætisvott fyrir
það sem ég hafði gert fyrir hann í sóttkvínni.
Mesta gleði mín var samt vegna þess að allt fór vel og engum á
heimilinu varð meint af veikindum póstsins. Ég gerði herbergið
sem Sigurður póstur var í, hreint hátt og lágt, eftir að hann var
farinn. Þá var lýsólið ekki sparað.
73