Strandapósturinn - 01.06.1992, Page 125
einhver á eftir mér, lít um öxl og segi: „Varstu nú rekinn út
kallinn“. Þá var svarað: „Ó, nei, það var nú ekki í þetta sinn.“ Þetta
var þá Kristinn Stefánsson skólastjóri á leið út til að hitta séra
Einar og hafði hann gaman af. Kristinn var mikið prúðmenni.
Einn félaga minna þarna, var svona heldur hyskinn við nám.
Hann vann alltaf danska stíla eftir öðrum.
Svo kemur að prófi og hann hefur með sér bókina í prófið og
geymir hana í opnu rými undir borðinu. Af og til er hann að draga
fram bókina og líta í hana. Þorgils Guðmundsson leikfimikennari
sat yfir, glöggur maður og fylgdist vel með. Þegar pilturinn hefur
lokið prófinu og stekkur út sér hann að Þorgils gengur að borðinu
og tekur bókina. Þá er það minn maður sem fer beinustu leið til
skólastjóra og segist ekki hafa getað stillt sig um að líta í bókina úr
því hún hafi nú legið þarna og hann geri sig alveg ánægjan með að
fá 5. Og það fékk hann, liefði sennilega fengið núll annars.
Hjá Hriflu-Jónasi
Eftir dvölina í Reykholti fer ég í Samvinnuskólann í Reykjavík
og er þar í aðra tvo vetur.
Skólastjóri var þá Jónas frá Hriflu. Góður kennari og ekki
harður. Þetta var einmitt á þeim árum sem verið er að taka
stjórnartaumana af Jónasi í Framsóknarflokknum. Stundum vildi
bitna á okkur, skaplyndið hjá Jónasi um það leytið. Ég man t.d.
eftir einu atviki. Jónas lagði fyrir okkur spurningu og sá sem svara
átti gerði það rétt, en þó ekki með þeim orðum sem Jónas vildi
hafa. Það mátti heita að það hafl orðið sprenging. Hann varð svo
vondur. Annars var hann sérlega góður á prófum. Þegar ég átti að
útskrifast seinni veturinn lagði hann fyrir okkur 5 spurningar í
þjóðfélagsfræði og sagði um leið: „Ég ætla að biðja ykkur um að
hafa þetta ekki langt. Það skiptir ekki máli þó að þið svarið ekki því
sem ég spyr, þið getið misskilið spurninguna. En það skiptir máli
að ég sjái að þið skiljið það sem þið sjálf eruð að skrifa.“ Ég man nú
ekki hvað ég skrifaði á prófinu, taldi mig sleppa vel að fá 8 hjá
honum því að ég var afleitur stílisti.
123