Andvari - 01.01.2014, Side 110
108
SVEINN EINARSSON
ANDVARI
þessu verki og mun fyrirmyndin vera verk Oehlenschlágers sem einmitt hafði
valið sér þau Kjartan Olafsson og Guðrúnu Ósvífursdóttur að yrkisefni í leik-
riti. Það leikrit virðist aldrei hafa freistað íslendinga, en var reyndar ekki sýnt
fyrr en 1848 á Konunglega leikhúsinu, nokkrum árum eftir að Gísli barðist
við að setja sitt verk saman. En fyrirmyndir hafði hann trúlega í öðrum verk-
um hins danska skálds. Gísli sem var fæddur 1818 og kom til Hafnar rúmlega
tvítugur hafði um líkt leyti eða aðeins fyrr sett saman gamansaman ljóða-
leiks-þátt um bóksala og nefndist einfaldlega Bóksala\ og má sá kannski með
nokkrum rétti kallast fyrsti ljóðleikur íslenskra leikbókmennta. Þátturinn var
prentaður í Fjölni og kveður Steingrímur J. Þorsteinsson í riti sínu um upphaf
leikritunar á íslandi sýnt, að hann hefur verið hugsaður til lestrar fremur en
leiks; hér verður tekið undir þá skoðun þó að þessi stutti leikur sé ortur undir
svo margvíslegum bragarháttum að sú tilfinning læðist þó að manni að höf-
undur hafi haft ákveðin þekkt lög í huga þegar hann orti. En fólk í leikjum
á þessum árum átti sem kunnugt er til að bresta í söng í tíma og ótíma og
eimir eftir af þeim sið enn.2 Annar ungur Hafnarstúdent, Lárus Sigurðsson
úr Geitareyjum, mun einnig hafa glímt við það nokkru fyrr að koma efni úr
Laxdælu í leikritsform og það á íslensku, en það handrit mun glatað. Lárus
lést 1832 úr brjóstveiki, 24 ára gamall.3
Ekkert af því sem hér var rakið, né heldur inngangur í bundnu máli að
Holbergssýningu, Bes0get hos Thalia, eftir Finn Magnússon, og er trúlega
enn eldra, hefur í raun nokkur áhrif á það sem á eftir fylgir; það er allt utan-
við íslenska leikritunarsögu. Sama máli gildir um leikrit um dönsku þjóðhetj-
una Niels Ebbesen eftir Jóhann Gunnlaugsson Briem, son Gunnlaugs sýslu-
manns á Grund. Gunnlaugur hafði stundað myndlistarnám við Konunglegu
akademíuna í Höfn eftir að hún komst á laggirnar 1754, fyrstur íslendinga að
ljúka þaðan prófi ásamt Sæmundi Hólm. Það leikrit er einnig samið í bundnu
máli og óleikið að því er virðist. Það var prentað í Randers á Austur-Jótlandi
1840, og mun vera fyrsta leikrit eftir íslenskan mann sem sá heiður hlotnast.
Sjónleikir Sigurðar Péturssonar voru ekki gefnir út fyrr en nokkrum árum
seinna. Jóhann sem hafði verið í skólanum í Slagelse áður en hann gekk á
Háskólann, ílentist í Danmörku og varð prestur. En dóttir hans giftist manni
sem bar eftirnafnið Ebbesen.
Annars er Indriði Einarsson sá maður sem kalla má upphafsmann í ljóð-
leikjum á íslandi, eins og svo mörgu öðru. Kaflar í Nýársnóttinni (1873) eru
í órímuðu bundnu máli, og eru það einkum álfarnir sem eru svo skáldlega
sinnaðir. í næsta leikriti Indriða, Hellismönnum (frumsýndir 1873, pr. 1897),
sem eru mjög undir áhrifum frá Shakespeare, eru enn meiri brögð að þessu,
jafnt hellismenn eins og þeir Valnastakkur og Fjögramaki sem byggðamenn
tala tímum saman í bundnu máli, og byggðamenn bresta jafnvel í söng, þegar
þeir herða hver annan að leggja til atlögu við hina voðalegu útilegumenn.4