Andvari - 01.01.2014, Side 116
114
SVEINN EINARSSON
ANDVARI
Þá hafa þarna varðveist enn ein slitur í samtalsformi og er það fundur, eins
konar afbrigði af beinu lýðræði. í lok fundar kemur í ljós að í næsta atriði eiga
frambjóðendur að ganga fram og skýra fundarmönnum frá skoðunum sínum.
Þó að einn fundarmanna heiti Jón, er ekki endilega að þetta sé hluti sama
leikrits, þessi leikur er pólitískt þras um Homestead-lögin, eignarétt á landi
eftir landnám, og meira að segja er socialismus nefndur.
3
Meiri forvitni vekur enn eitt brot og er kveikja þessara skrifa og kallast á við
inngangsorðin. Allt í einu rekur nefnilega á fjörur okkar ljóðaleik eftir þetta
höfuðskáld og nefnist Kerlingin með sálina hans Jóns. Act V. Hér er sem sagt
gefið í skyn að um sé að ræða fimmta þátt í lengra leikriti.
Formið sjálft er forvitnilegt, en efnið vekur ekki síður furðu. Á fremstu
síðunni stendur þetta: Vti Leikur. (Leiksviðið er falið í hálfrökkri, aldimmt ið
efra, en nokkru bjartara niðri, svo gryllir fyrir leikendum. Til vinstri verður
myrkrið æ svartara; til hægri sést ljósbjarmi sem verður bjartari og fegurri
eftir því sem á leikinn líður.) (Leikendur: Auður („Kellingin með sálina hans
Jóns síns“), Svipur síra Björns; Lucifer; Lykla-Pétur; Raddir úr Helvíti; Raddir
úr Himnaríki; Rödd Dagbjartar; Rödd Jóns.) Ita. Sýning: Auður og svipur síra
Björns. Auður mætir svip sra Bjarnar og stendur. - Síðan hefjast orðskipti per-
sónanna.
Nú er margs að gæta. Fyrst er auðvitað sú spurning hvort um eitt og sama
leikrit sé að ræða og sorgarsögu hjónaleysanna sem hér að framan var lýst.
Ef fundarbrotinu er þá vikið frá, standa eftir upphaf annars þáttar og upphaf
þriðja þáttar og fimmti þáttur allur. Það sem styður að um sama leikrit sé að
ræða er að fyrir koma að minnsta kosti sömu persónur, Jón og síra Björn, og
það eru orð og gjörðir klerks öllu fremur en Jóns sem eru sett undir mæliker.
Þarna má rekja einn og sama söguþráð og siðferðislega meiningu. Það sem
mælir gegn því eða að minnsta kosti flækir málið er sú staðreynd, að annar
þáttur virðist ritaður með annarri hendi en hinni fallegu hendi Stephans G.
Þriðji þáttur er hins vegar með hendi skáldsins, þó að letrið sé smærra en í
fimmta þætti, þar sem hönd Stephans er auðþekkjanleg. Lögðu þarna fleiri en
einn hönd á plóginn? Eða var leikbrotið úr öðrum þætti afskrift annars manns
(sem kannski tók þátt í flutningi verksins)? Ef öll brotin tilheyra sama leik-
riti læðist að manni grunur um að þau séu ekki öll rituð á sama tíma, fyrri
þættirnir kannski löngu fyrr. Á þeim fyrri er talsverður byrjendabragur og
þó að brotalöm sé á gangi og byggingu fimmta þáttar, er þar þroskað skáld á
ferð. Fyrri þáttunum er ætlað að vera raunsæilegir þó að af þeim brotum sem
varðveist hafa sé ekki fyllilega skýrt hvort þeir eiga að gerast á Islandi eða