Andvari - 01.01.2014, Page 183
ANDVARI
AÐ LÆRA TIL SKÁLDS - TILRAUN UM NÁM
181
kenningar með gyðjunafn í stofni sé mjög nærri sanni og þar sé skýr munur á
kenningum karla og kvenna. Sálfræðin getur hugsanlega skemmt okkur með
því að benda á að langflest dróttkvæðaskáldin eru karlar og kannski er þeim
geðfelldara að líkja konum við gyðjur en körlum við ásu.
Kenningatal allt til Krists
Enn eru eftir vinsæl efni í kenningasmíðinni, gull (og kvenkenningar því tengd-
ar, einkum dæmi), dæmavísur með mannkenningum (viður, meiður o.s.frv.),
orrustukenningar, vopnakenningar, skipskenningar og Kristskenningar.
Allt er þetta hagnýtt og gott, meira að segja mjög skiljanlegt að öllu þessu
tali um heiðnar kenningar ljúki með Kristskenningum. Skáldin hafa fyrir
löngu snúið tali sínu til hans ekkert síður en jarðnesku höfðingjanna, hvött
af prestum og prelátum, og þessi ábending Eddu er býsna þarfleg og kemur
þegar taldar hafa verið nokkrar kenningar Krists:
Þar koma saman kenningar og verður sá að skilja er ræður af stöðu skáldskaparins um
hvern kveðið er konunginn, því rétt er að kalla Miklagarðs keisara Grikkja konung, og
svo þann konung er ræður Jórsalalandi, kenna þann Jórsala konung. Svo og Rómaborgar
konung, kenna hann Róms konung og Engla konung þann er Englandi ræður. En sú
kenning er áður var rituð að kenna Krist konung manna, þá kenning má eiga hver
konungur [...] (U-Edda 2013, 282)
Þetta er eðlileg ábending til skáldnemanna: Það verður að gæta samhengisins,
þótt Kristur sé í einni vísu kallaður Jórsala konungur getur sú kenning allt að
einu átt við jarðneskan konung í annarri vísu.
Þótt skilgreiningarnar og skilin milli kenndra heita og ókenndra (kenninga
og heita) hafi ekki alltaf verið skýr, lýkur kenningaþættinum í megindráttum
með konungakenningum. Síðan er komið að heitunum og skilin eru þrátt
fyrir allt gerð dálítið formleg.
Ókennd heiti: Hér segir hversu kennd er setning skáldskapar
Þessi fyrirsögn gefur í skyn að heitatalið sem nú hefst verði með nokkurn
veginn jafnformlegum hætti og kenningaþátturinn. Og framhaldið er líka
formlegt:
Hvernig er kennd setning skáldskaparins?
Svo að nefna hvern hlut sem heitir.
Hver eru ókennd nöfn skáldskaparins?
Hann heitir bragur og hróður, mærð og lof og leyfð. (U-Edda 2013, 288).29