Heilbrigt líf - 01.06.1947, Blaðsíða 28
ýmsir menntamenn æði breyzkir, enda stofnaði þá herra
Hallgrímur Sveinsson, biskup, rauðvínsbindindi presta.
Áfengiskaupin hafa vitanlega aukizt stórum síðari árin
vegna þess, hve menn hafa nú mikil skildingaráð, nema
einna helzt ýmsir „á launalögum“. En stríðsárin hafa
hinar „vinnandi stéttir“ hlotið þær kjarabætur, að fjöldi
manns virðist varla komast yfir að eyða tekjum sínum,
né vita, hvað skal gert í tómstundum, sem verða æ fleiri.
Margan hefur auður apað.
Menn verða að gera sér ljóst, að áfengisvandræðunum
verður ekki kippt í lag á stuttum tíma. Til þess þarf mjög
bætta siðmenntun og háttvísi. Meðan ráðherrar landsins
skipa drykkfellda menn í vandasöm embætti og alþingis-
menn deila um það, hvort þeir hafi verið algáðir á þing-
bekkjum, er langt í land. Almenningur vantreystir vart
mönnum þótt þeir séu drykkfelldir. Og það liggur við,
að þeir séu friðhelgir í samkvæmum. í stað þess að taka
ráðin af drykkjumönnunum og reyna að lækna þá að
nútíma hætti, eins og einkum er farið að tíðkast í Banda-
ríkjunum, er allt látið reka á reiðanum, þó að menn eyði-
leggi sjálfa sig og fjölskyldur sínar.
Þó að bindindisfólkið megi ekki heyra á það minnzt,
er það samt vitanlegt, að fjöldi manns neytir áfengis í
hófi, sér að skaðlausu og hafa nautn af því. I einu af
hinum merku og efnismiklu erindum sínum kemst Sig.
Guðmundsson skólameistari svo að orði, að jafnvel Bakkusi
beri að sýna sanngirni. Það kemur ekki til af engu, að
menn sækjast eftir áfengi, margir hverjir, því að vín-
föngin hressa og gleðja þá, sem neyta þess í hófi. Það
er bág útkoma af áfengispólitík þjóðarinnar, að sjúkra-
húsin skuli ekki að jafnaði bera aumum og lystarlitlum
sjúklingum vínglas með mat. Eins ættu húsmæður að eiga
kost á ódýru matarvíni, sem víða um lönd þykir ómissandi
við matargerð.
26
Heilbrigt líf