Heilbrigt líf - 01.06.1947, Blaðsíða 87
heilbrigðisskýrslurnar stórmerkar heimildir um heilsufar
þjóðarinnar, enda munu vanhöldin á því efni, sem land-
læknir hefur til úrvinnslu, vera svipuð ár frá ári.
Hér fer svo á eftir ágrip af því helzta, sem skýrslurnar
fyrir árið 1942 hafa að geyma, en auðvitað eru það þó
ekki nema glefsur úr þessu mikla verki landlæknis.
Árferði og almenn afkoma 1942.
Samkvæmt skýrslu veðurstofunnar var tíðarfarið yfir-
leitt umhleypingasamt og óhagstætt. Meðalhiti var þó fyrir
ofan meðallag bæði í lofti og legi. Eins og fyrri daginn
setur Vík í Mýrdal met um ársúrkomu, sem mældist þar
2085,6 mm., en minnst var úrkoman, svo sem venja er
til, í S.-Þingeyjarsýslu, í þetta skipti á Húsavík — 349,1
mm.
Veðráttan var óhagstæð landbúnaðinum, en annars stóð
atvinnulíf landsmanna í miklum blóma, enda mun hið
erlenda setulið hafa sótzt eftir hverjum, sem vettlingi
gat valdið til ýmislegra starfa og borgað þau háu verði,
„en afrekin ekki augljós óhernaðarlærðu fólki“, eins og
Seyðisfjarðarlæknirinn komst að orði í fyrri skýrslu.
Þjóðartekjurnar náðu hámarki og kaupgeta aldrei meiri.
Dýrtíðin lék lausum hala þrátt fyrir „ráð“ og nefndir, er
reyndu að hafa á henni hemil og fór verðlagsvísitalan úr
183 í ársbyrjun (miðað við 100 á fyrsta ársfjórðungi 1939)
í 272 í desember 1942.
TJr Þingeyrarhér. segir læknirinn:
„Sjómenn ausa upp fé. Bændur safna í kornhlöður“.
Úr Hofsóshér., þar sem ýmsir hafa að jafnaði lifað við
kröpp kjör, segir, að þar sé „sú gnægð, sem ekki hefur
þekkzt áður“. Sjómenn lögðu sig að vísu í hættu í
millilandasiglingum, en tekjur við sjávarsíðuna voru
geipilegar. Úr Akureyrarhér. segir, að hásetahlutur hafi
orðið allt að 4000 krónum á mánuði um síldartímann.
Heilbrigt líf
85