Goðasteinn - 01.03.1968, Blaðsíða 62
skipinu til fiskjar frá Hafnarbúðum um vorið, og bar ekki til tíð-
inda en allt gekk vel.
Um haustið fór ég einnig þangað til vers. Þá bar það til í öðrum
eða þriðja róðri, er vér vorum komnir fram á mið í bezta veðri, að
allt í einu dró upp ákaflegan mökk í vestri, er á svipstundu æddi
um allt loftið, svo himinninn varð albyrgður á augabragði. Um
leið skellti á eitt mesta ofsarok af austri, sem ég minnist að hafa
séð. Þessu fylgdi einhvers konar úði eða suddi, sem klesstist ut-
an á okkur og allt, sem í skipinu var, bæði segl og annað. Þetta
líktist helzt myglu eða einhvers konar óþverra, og loddi það við
lengi á eftir. Vér höfðum uppi vaði vora hið bráðasta og tókum
til ára, enda þótt ólíklegt væri, að vér drægjum nokkuð gegn slíkum
ofsa. Brátt komst ég þó að raun um, að oss gekk furðanlega.
Vér þæfðum svo áfram æði lengi, þar til að vér vorum komnir
fast að landi, cn þótt vér sæjum ekkert frá oss, hittum vér rétt á
lendinguna og lentum svo slysalaust. Síðan fórum vér að taka á oss
náðir, því að vér vorum allþrekaðir eftir barninginn.
I vcrbúð minni hagaði svo til, að tvö rúm voru undir annarri
hliðinni en eitt undir hinni. Fyrir framan það var autt pláss, er vér
geymdum í verskrínur og annað dót. Tveir sváfu saman í hverju
rúmi. Rekkjunautur minn var bóndi frá Síðu í Refasveit, Kristján
að nafni, Guðlaugsson. Við sváfum í staka rúminu, hann við stokk
cn ég við vegg. 1 rúminu gegnt okkur var maður, er Sveinn hét,
Sveinsson, bóndi í Hólabæ í Langadal. Hann var talinn vera vel
skyggn. Þegar vér vorum flestir fyrir litlu sofnaðir, dreymir Kristj-
án, að honum þykir strákur koma inn í búðina, heldur lítilf jörlegur,
í grárri úlpu, með mórauðan hattkúf á hausnum. Þegar hann er
kominn inn úr dyrunum, fer hann að tvístíga þar á gólfinu og
mænir upp í rúmið til okkar. Kristján þykist þá spyrja, hvaðan
hann sé. Hann segist vera vestan af Ströndum, vinnumaður Sveins
á Felli. „Hvað ertu að erinda hingað?“ spyr Kristján. „Ég átti að
finna hann Guðmund hérna,“ svarar strákur, tekur af sér hatt-
kúfinn og fer að búast til að skreiðast inn yfir rúmgaflinn. En þá
þykist Kristján ætla að sparka til hans, en í því vaknaði hann og
hafði þá spyrnt svo fast í fótagaflinn, að hann losnaði frá.
Sveinn var vakandi og sá nákvæmlega allt, sem Kristján dreymdi,
60
Goðasteinn