Goðasteinn - 01.03.1968, Blaðsíða 75
þig þar sem hæst er. Gættu þess vel, að straumurinn bægi þér eigi
af braut og vikurinn fari hvorki í vit þín né augu.
Á kafla, þar sem dýpst var, börðust lausu hestarnir við að halda
botni í varinu af Skjóna. Já áreiðanlega bjargaði hann okkur öll-
um, því seint um síðir fór að grynnka og þar kom, að við höfðum
þurrt land undir fótum. Þá lagði ég hendurnar um hálsinn á Skjóna
og þakkaði honum og guði, sem höfðu leitt okkur „lífs á land“.
Þessi fagri sumarmorgunn austan við Hólmsá er mér ákaflega
minnisstæður. Sólin ljómaði í heiði og hlíðin hjá Hrísnesi var sem
gimsteinum sett. Döggin sat á hverju strái og laufblaði og blærinn
vaggaði stráunum rétt hæfilega til þess að Ijósbrotið glitraði og
skein. Sumarfuglarnir svifu þar yfir og sungu hver sínum rómi líf-
inu og skaparanum lof og dýrð. Ekki veit ég, hvað Skjóni skynj-
aði af þessu, en viðmót mitt skildi hann vel, það sá ég á svip hans,
er við héldum frá ánni upp að Hrísnesi.
Að Hrísnesi kom ég í þann mund, er fólk kom á fætur. Furðaði
Jón á því, að áin skyldi fær og kvað bíræfni að leggja í hana. Eitt-
hvað reyndi ég að færa mér til málsbóta, ég hefði miðað brotið
daginn áður og svo væri ég á ágætum - „hesti og því hvergi hrædd-
ur,“ greip Jón fram í fyrir mér, og svo snerum við talinu að öðru.
Ég dvaldist í Hrísnesi fram til kl. 3 e.h. við beztu aðhlynningu,
og ekki þurfti ég að hafa áhyggjur af hestum mínum. Voru þau
Hrísneshjónin, Jón og Elín, jafnnærfærin og hugul við málleys-
ingja og menn, er að garði þeirra bar.
Hólmsá fór vaxandi fram að hádegi, en um nónið var farið að
fjara í henni. Ég tefldi á tæpasta vaðið í skiptunum við hana og
mátti ekki vera þar seinna á ferð þennan fagra morgun.
Á heimleið um Hrísnesheiði átti ég fagurt útsýni í þrjár áttir:
austur um Síðuheiðar, yfir Skaftárhraun, suður um Meðalland og
Álftaver og vestur yfir Mýrdalssand. Kúðafljót var sem á fjörð
sæi, frá Mýrnahöfða að vestan og austur í Meðalland, fleiri km
að breidd. Þeir er eigi séð hafa, geta naumast gert sér grein fyrir
mikilleik Kúðafljóts eftir stórregn.
Á vesturleið hafði Tungufljót verið hestum mínum í kvið, nú
náði það á herðatopp og vatnið þó farið að sjatna. Eldvatnið hjá
Goðasteinn
73