Tímarit Hins íslenzka bókmentafélags - 01.01.1901, Blaðsíða 88
88
Hinar alþektu frásögur í i. Mós. um sköpun heimsins.
syndafallið, flóðið mikla og Babelsturninn, álíta nú allir
atkvæðamestu guðfræðingar vorra tíma fagrar þjóðsögur,
er um leið og þær flytji oss mikilvæg trúarleg sannindi
(opinberunar-sannindi), sýni oss fremur, hvernig Israel
hugsaði sér þetta í fyrndinni, en hvernig það í raun og
veru hafi verið. Svo hátignarlegar sem t. a. m. sköpun-
arfrásöguruar og syndafallssagan eru, bera þær það þó
með sér, að tilgangur þeirra er, eins og þegar hefir verið
sagt, sá einn, að flytja oss trúarleg sannindi, sem manns-
andinn hefir fært í »sögulegar« umbúðir, til þess að gera
þessi sannindi handsamanlegri. Það sem t. a. m. sköpunar-
frásagan á að opinbera oss, er ekki það, hvernig (o: á hve
löngum tíma og í hvaða röð) guð hafi skapað heiminn,
heldur að heimurinn sé skapaður af guði.
En eins og ekki verður bent á neinar sögulegar,
skrifaðar heimildir fyrir frumsögu mannkynsins og ísra-
elsþjóðarinnar, eins og frá þessu er skýrt í i. Mós.,
þannig getum vér ekki heldur bent á neinar sérstakar
heimildir fyrir frásögunum um flutning Hebreanna til
Egiptalands eða dvölina þar. Það er ekki fyr en Móse
kemur til sögunnar að farið er að vitna til slíkra heim-
ilda. Hvort Hebrear hafi þekt leturgjörð, er þeir fluttust
frá Mesopótamíu vestur til Kanaan, vitum vér ekki.
Reyndar komu þeir frá löndum þar sem leturgjörð hafði
um langan aldur verið þekt og iðkuð (sem sé hinar svo
nefndu fleigrúnir). En eins og hag Hebrea var háttað
eftir burtförina frá Mesopótamíu, er naumast að vænta
þess, að þeir hafi iðkað leturgjörð. Eftir komu þeirra
til Egiptalands hefir þetta getað breyzt. Egiptar voru
mentuð þjóð, er meðal annars iðkuðu leturgjörð, og hafa
Hebrear getað lært hana þar, hafi þeir ekki kunnað hana
áður. Reyndar lifðu þeir mjög svo út af fyrir sig, með-
an þeir dvöldu i Gósen, og höfðu lítil mök við Egipta;