Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands - 01.01.1983, Side 21
hæfir, þegar hin gjöfulu dýr, kýrin og kindin eru talin lítt þörf
þjóðum, að ala þá óargadýrin þeim til yndis, sem skinnum
þeirra vilja vefja um líkama sinn. Fiskirækt kemur til með að
auka tekjur nokkurra bænda en ekki í skyndi. Betri nýting
hefðbundinna hlunninda verður notadrýgri þeim sem búa við
dulið atvinnuleysi.
En þótt þetta sé talið, verða margir með of skert bú án þess
að geta aflað sér tekna eftir framangreindum leiðum. Kem ég
þá enn með þá ábendingu að ríkissjóður eða byggðasjóður
veiti ákveðið fjármagn handa slíkum bændum til að vinna að
skógrækt, ýmist í löndum Skógræktar ríkisins eða á eigin
landi undir stjórn skógræktarsérfræðinga, sem eru ótrúlega
margir á launaskrá án stórbrotinna viðfangsefna. Með þessu
móti yrði tilraunin mikla að veruleika og sýndi leikum sem
lærðum nytsemi skógræktar á Islandi.
Innan fárra ára birtir til, ef til vill með þörf fyrir aukna
framleiðslu hefðbundinna búgreina, en þangað til verða
bændur að þreyja þorran og góuna og búa sem mest að sínu,
kaupa sem minnst til bús og gæta hagsýni í hvívetna.
Sárast er nú að þurfa að hlusta á gorhljóðið í fjölmiðla-
mönnum, sem ræða um fækkun sauðfjár. Það er eins og ein-
hverjum býsnum sé verið að bjarga. Sú skoðun er árangur iðju
þeirra, sem á liðnum árum hafa notað hvert tækifæri til að
telja almenningi trú um að sauðkindin sé þjóðhættuleg
skepna sem eyði gróðri og allir þurfi að vara sig á. Þeir góðu
herrar ættu að horfa á hrossanögur víða um land. Þótt
hrossabeit geti verið hagabót þá verður hún landnýðsla séu
þau of mörg. Svipað gildir um nautpening. Staðreyndin er, að
sauðkind fer betur með land en annað búfé, þrátt fyrir allan
áróður Hákonar Bjarnasonar og hans áhangenda, þótt
hungraðir sauðir í harðindum bíti kvist.
Það er bænda að varðveita landið og hver kynslóð á að skila
því betra en hún tók við því. Það hefur sú kynslóð gert sem nú
fyllir hóp lífeyrisþega.