Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands - 01.01.1983, Blaðsíða 129
löndunum, og varð ekki séð að íslenskir stofnar hefðu staðist
kal þarna betur en aðrir. Þetta er eðlilegt, vegna þess að þarna
var um rotkal af völdum sveppa að ræða, en á það reynir lítið
á íslandi. Sannar þetta enn betur að við verðum sjálfir að
velja okkar grasstofna og leggja megináhersluna á svellþolið.
Önnur tilraun vakti einnig athygli mína, en það var rannsókn
á notagildi húsapunts, illgresis sem allir reyna að eyða. Þarna
var borið á húsapuntinn og hann sleginn og prófaður í fóð-
urtilraun með kálfa. Hann gaf mjög mikla uppskeru og
reyndist próteinríkari en önnur grös.
Rannsóknastörf.
Síðastliðið vor vann ég svolítið við áburðardreifingu og gróð-
urmat á nokkrum tilraunum Tilraunastöðvarinnar, en þær
komu flestar sæmilega undan vetri.
Nú hefur Ræktunarfélagið eignast frystitæki, sem fyrir-
hugað er að nota við kalrannsóknir. Er þess vænst að þeim
verði í vetur komið fyrir á Möðruvöllum og hægt verði að
hefjast handa við þolprófanir grasa fljótlega. Þess má geta að
Ræktunarfélagið fékk á þessu ári styrk úr Vísindasjóði til
tækjakaupa vegna rannsókna á blaðblettasveppum á grösum,
en þetta er framhald rannsókna sem ég vann að fyrir nokkrum
árum. Er þegar búið að kaupa víðsjá til þessara rannsókna og
vonumst við til að geta hafið þær á næsta ári.
Þessi starfsskýrsla er skrifuð í Kiel í Þýskalandi, en þar dvel
ég í þrjá mánuði á þýskum rannsóknarstyrk. Eg verð hér við
Jurtanæringar- og jarðvegsfræðideild Kielarháskóla út sept-
embermánuð og rannsaka íslenska mýrarmold. Athuga ég
einkum hvort mangan, járn og aluminium geti verið í ofur-
magni og hugsanlega valdið eituráhrifum á grös í slíkri mold,
en mér hefur ekki þótt einleikið hve illa gengur að halda lífi í
sáðgresi í mýramold á annesjum norðanlands, svo og hve
endurvinnsla túna er víða erfið og misheppnuð. Hér er öll
aðstaða og sérfræðiþekking til slíkra rannsókna.
131