Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands - 01.01.1983, Page 79
HELGI HALLGRlMSSON:
SÆNEYTI — NAUTGRIPIR ÚR SJÓ
Vanrœktur þáttur í sögu nautgriþaræktar á Islandi
Það hefur lengi verið trú manna, að í sjónum kringum landið
ættu heima ýmis dýr, sem samsvara að flestu leyti ýmsum
alkunnum landdýrum, einkum þó húsdýrum okkar og svo
manninum sjálfum. Þannig er talað um sækýr (og sænaut),
sæhesta, sæhunda, og sæmenn eða hafmenn (marbendla,
hafmeyjar o.fl.). Reyndar mun sæhesta ekki vera getið nema úr
Grímsey, en í tjörnum og vötnum voru vatnahestar, sem oft-
ast voru kallaðir njkrar, algengir. Þótt einkennilegt megi virð-
ast hef ég ekki rekist á neinar sagnir um sæfé eða sækindur í
líkingu við sauðfé, en þó má vera að fjörulallar hafi verið taldir
samsvara landsauðum, a.m.k. leituðu þeir oft í fjárhópa og til
eru sagnir um að þeir hafi aukið kyn sitt með sauðfé. Sœhunda
er einkum getið af austanverðu landinu, og bendir ýmislegt til
að þar sé um að ræða vatna-otur, algengt dýr í Evrópu. Flest
þessara kynjadýra sjávarins geta einnig komið fyrir í ám og
vötnum, eins og getið var um sæhestinn.
Þá virðast menn stundum ekki hafa gert mikinn greinar-
mun á ofannefndum sædýrum og húsdýrum huldufólks, er átti
heima í klettum og hólum á landi, enda samsvöruðu þeirra
húsdýr nákvæmlega okkar húsdýrum og áttu það til að
blanda kyni við þau. Auk þess herma gamlar sögur að
huldufólk geti haft bústaði sína í klettum undir sjónum, og
loks eru sækýr stundum taldar eign marmennla, sem gjarnan er
lýst sem einhvers konar hulduverum, er eigi heima á sjávar-
botni.
81
6 — Ársrit Ræktunarfclags Norðurlands 1983, 80: 81-116.