Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands - 01.01.1983, Page 108
sameiginlegu sagnminni, sem eflaust á sér ævafornar rætur og
má að likindum rekja til goðsagna er gengið hafa með þjóðum
Evrópu og Asíu, sbr. goðsöguna um Auðhumlu í Snorra-Eddu
o.fl.
Það sem líklega er þó sérstaklega íslenzkt við þessar sögur,
er nasablaðran margumrædda, sem ekki er kunnugt að menn
hafi gætt sækýr með í grannlöndum. Má ætla að hún sé til
komin með hliðsjón af blöðruselnum, sem hefur svipaða
blöðru, þótt ekki noti hann hana til öndunar, heldur að lík-
indum til að hræða með óvini sína og keppinauta, enda aðeins
brimlarnir sem hafa þetta skraut. (B. Sæm.).
Sögurnar í þessum hópi eru yfirleitt ekki tímasettar og
sjaldan tengdar nafngreindum mönnum, þótt það komi fyrir
(t.d. í Kálfatjarnarsögunni og Breiðavíkursögunni), og megi
þá tímasetja þær út frá því. Hins vegar hafa þær það fram yfir
ævintýrin, að vera jafnan tengdar ákveðnum stöðum, en til
þess er rík tilhneiging hér á landi að tengja jafnvel augljósar
ævintýrasögur við staði.
Eins og gefur að skilja er sögulegt heimildagildi þessara
sagna ekki mikið, og þó er ekki þar með sagt að þær séu
uppspuni einn, eða spegli aðeins sálarlega eða bókmenntalega
reynslu, eins og sumir vilja halda um þjóðsögur yfirleitt. Er
athyglisvert að þær eru yfirleitt af sömu svæðum og nýlegu
sagnirnar (sbr. kortið, mynd 1), sem bendir til að í þeim felist
sannsögulegur kjarni.
Hins vegar eru svo allflestar sögurnar í síðara flokki þessara
sagna, sem að því er virðist lýsa raunverulegum atburðum, þ.e.
dýrum sem sést hafa ganga úr sjó og hverfa í hann aftur,
dýrum sem líkjast nautgripum a.m.k. tilsýndar, og virðast
stundum hafa tilhneygingu til að koma saman við kýr. Þessar
sögur eru yfirleitt tengdar nafngreindu fólki sem sá atburðinn
og því allvel tímasettar, og staðsettar. Einnig er aðstæðum og
staðháttum oft lýst, jafnvel veðri, snjóalögum o.s.frv. Oft eru
sögurnar hafðar eftir sjónarvottum stundum jafnvel ritaðar
beint eftir þeim, enda hafa ýmsar þeirra gerst um eða eftir
aldamótin síðustu.
Það væri fjarstæða að halda því fram, að hér sé um lygi-
110