Árbók Landsbókasafns Íslands - 01.01.1971, Blaðsíða 109
BJARNI VILHJÁLMSSON
UM ÞJÓÐSKJALASAFN ÍSLANDS
OG HÉRAÐSSKJALASÖFN
ÞJÓÐSKJALASAFN Islands varðveitir í mjög ríkmn mæli embættisskjöl, sem varða
íslenzka sögu frá því í lok 16. aldar, en þó einkanlega frá 18. og 19. öld og fyrrihluta
20. aldar. Auk þess á það afar merkilegt safn fornbréfa, einkum kirknaskjala og jarða-
skjala, sem ná aftur á 12. öld. Elztu íslenzku skjalagögnin, sem í safninu eru, hafa
ýmist varðveitzt við biskupsstólana og einstakar kirkjur eða í dönskum stjórnardeild-
um og síðar dönskum söfnum, sem hafa skilað þessum gögnum til Islands, eftir að
æðsta stjórn landsins fluttist inn í landið.
Um opinbert skjalasafn í landinu sjálfu er ekki að ræða fyrr en með auglýsingu
Hilmars Finsens landshöfðingj a um Landsskjalasafn 3. apríl 1882, sem verður að
telja sömu stofnun og Þjóðskjalasafn Islands, en það nafn komst á með lögum um
Þjóðskjalasafn íslands frá 3. nóvember 1915, er gengu í gildi 1. janúar 1916.
í nýjum lögum um Þjóðskjalasafn íslands frá 17. marz 1969 segir svo í 2. grein
um hlutverk safnsins:
„Hlutverk Þj óðskj alasafns íslands er:
1. að annast innheimtu og varðveizlu á öllum þeim skjalasöfnum opinberra embætta
og stofnana ríkisins, sem orðin eru afhendingarskyld samkvæmt gildandi reglugerð
um Þjóðskjalasafn á hverjum tíma;
2. að skrásetja öll afhent skjalasöfn hvert um sig og gefa út prentaðar eða fjölritaðar
skrár um þau til leiðbeiningar við notkun þeirra;
3. að safna öðrum skráðum heimildmn þjóðarsögunnar innan lands og utan, þar
með ljósritum slíkra heimilda, sem finnast í erlendum skjalasöfnum;
4. að halda opnum lestrarsal fyrir almenning, þar sem hægt sé að sinna fræðistörfum
og færa sér varðveitt skjöl og heimildir skj alasafnsins í nyt.“
Eitt er lög og annað framkvæmd þeirra, og eru stofnanir engin undantekning í þeim
efnum. Hér skal ekkert fjölyrt frekar um það, en síðar mun ég lýsa þróunarferli
stofnunarinnar frá upphafi, og kemur þá í ljós, hvar hún er á vegi stödd.
Áður mun ég þó í örfáum orðum gera grein fyrir þeim meginsjónarmiðum, sem
höfð eru við röðun skjala í safninu. Tilgangurinn með röðun skjala er vitaskuld
sá, að hvert skjal sé finnanlegt með sem minnstri fyrirhöfn. A. m. k. frá því um miðja