Árbók Landsbókasafns Íslands - 01.01.1971, Blaðsíða 139
ÍSLENZK RANNSÓKNARBÓKASÖFN
139
Efnisskrá blaða og tímarita, verk, sem verið hefur á döfinni lengi í Landsbókasafni,
sækist seinna en skyldi, en spjöld þeirrar skrár eru nú orðin rúmlega 100 þúsund og
blöð þau og tímarit, er farið hefur verið yfir í þessu skyni, eitthvað á annað hundrað.
Ef vel ætti að vera, þyrfti safnið að hafa fastan mann í þessu verki, a. m. k. meðan
svo langa nót er að draga sem enn er raunin á.
Vitað er, að önnur söfn, svo sem Amtsbókasafnið á Akureyri, hafa áhuga á því
að fá spjöld þessarar skrár mynduð á einhvern hátt, því að hið mesta hagræði væri
að því, að hún væri til víðar, og nefni ég auk Akureyrar staði sem Kaupmannahöfn,
Iþöku og Winnipeg. Ekki hefur þó enn verið kannað, hvað kosta mundi að afla sér
umræddrar efnisskrár blaða og tímarita í fjórum eintökum, en það yrði eflaust talsvert
fyrirtæki.
í Hávamálum stendur á einum stað:
Fregna ok segja
skal fróðra hverr,
sás vill heitinn horskr -
og getum vér snúið þeim einföldu sannindum upp á bókasöfnin. Þeim er ekki nóg
að fregna, þ. e. að draga að gögn og hvers konar vitneskju. Þau verða einnig að
segja, þ. e. auglýsa þau og koma þeim á framfæri við þann, er hafa vill.
Eitt af kjörorðum hins nýja tíma er það, sem á erlendu máli er kallað documenta-
tion, en hugtak þetta hefur verið skýrgreint sem öflun, úrval og miðlun þekkingar.
Fáeinar handbækur í litlu skólabókasafni eru vísir að þessu og eiga sama rétt á sér
og sú stóröflun og miðlun vísindalegrar þekkingar, sem tíðkuð er nú víða um lönd
og beitt er við háþróaðri tækni, er vér hljótum að reyna að fylgjast með og tileinka
oss eftir mætti. Vér þurfum að efla samband þorra manna við bókasöfnin á öllum
stigum, og því yngri sem þeir komast í snertingu við þau, því betra. Ég veit, að þeir,
sem fjalla síðar á þessum landsfundi um skólabókasöfn, munu leggja höfuðáherzlu á
það sjónarmið.
Vér, sem störfum í rannsóknarbókasöfnum, vitum, að vér verðum að gera miklu
meira en gert hefur verið fram að þessu til að kynna söfnin. Það er satt að segja
raunalegt, að margir ljúka hér löngu námi, án þess að hafa leitað svo að nokkru nærni
til þeirra bókasafna, er hefðu átt að vera aðalathvarf þeirra, meðan á náminu stóð.
Hér veldur auðvitað nokkru um þröngur húsakostur safnanna og erfið aðstaða
og því ekki nema von, að vér bindum miklar vonir við þjóðarbókhlöðu þá, sem fyrir-
hugað er að reisa á næstu árum.
Þótt freistandi væri að setja á langa tölu um það, hvernig vér hugsum oss hið nýja
hús í stórum dráttum, verður það ekki gert að sinni. Það eitt skal sagt, að vér, sem
að því máli vinnum bæði frá Landsbókasafni og Háskólanum og eigum um það ágætt
samstarf, munum reyna að haga svo tii í hvívetna, að safnið geti orðið sú miðstöð
og sá aflgjafi, sem því er ætlað að verða.