Andvari - 01.01.1993, Qupperneq 171
ANDVARI
JARÐNÁND - UPPPRÁ
169
fellt setur meira mark á þjóðlífið (I, 229). Það er þetta rótleysi og „eltingar-
leikur við hrævarlog tilverunnar“ (I, 273) sem hann óttast umfram allt að
geti orðið hlutskipti hinna brautskráðu ungmenna; og hann brýnir þau
óspart til viðnáms - til viðhalds fornra lífsgilda. „Það á ekki að breyta því,
sem vel gengur“, hefur hann lært af Sigurði skólameistara, læriföður sínum
(I, 271).
Kaldgeðja lesanda tíunda áratugarins gæti virst sem Þórarinn klappaði
hér, í þessum haust- og vorræðum sínum, sama steininn ad nauseam: að
spýjumörkum. Hann kynni jafnvel að brosa að því heimsósómakvaki og
svartagallsrausi sem þar ómar. Hafa ekki vallgrónir skólatorfsþulir kyrjað
sama óðinn á hverri tíð? Við nánari íhugun hygg ég hins vegar að brosið
fari af. Ræður Þórarins eru samdar þegar raunveruleg umskipti voru að
eiga sér stað í íslensku samfélagi, kannski einhver hin mestu sem um getur
í sögunni. Varnaðarorð hans eru ekki aðeins hefðbundið elliþvogl um heim
sem versnandi fer heldur raunveruleg ábending um hættu sem vofði yfir
okkur við skörp menningahvörf. Að einhverju leyti höfum við brugðist við
þeirri vá; að öðru leyti hefur það farist fyrir, eins og fréttir síðustu missera
af rótslitnum barnssálum í vígaham bera með sér. Vel kann að vera að
margt í þessum ræðum séu sjálfsagðir hlutir sem klifað hafi verið á af öðr-
um uppeldisfrömuðum og samfélagsrýnum. En það er nú einu sinni svo um
sjálfsagða hluti að oft er erfiðast af öllu að koma þeim til skila á eftirminni-
legan hátt til áheyrenda. Þórarni var sú list lagin. Að amast við endurtekn-
ingunum í skólasetningar- og skólaslitaræðum hans væri álíka hugsunar-
villa og stundum kemur fram hjá fólki sem agnúast út í tiltekna kennslubók
vegna þess hve hún hafi verið lengi kennd. Það vill gleymast að lesenda-
hópurinn er nýr á hverju ári.
Ihaldssemi Þórarins, sú sem hann segir ættaða frá forvera sínum, ristir
ekki heldur jafndjúpt og ætla mætti við fyrstu sýn. Honum blandast til
dæmis ekki hugur um að kennsluhættir verði að breytast ef „kennslustofan
á að keppa við hina síkviku lífsstrauma utan stofunnar“ (I, 259). En jafn-
framt er honum vel ljóst að allar „aðferðir eru aukaatriði hjá því, að nem-
endur vinni og nemi“ (I, 375). Ekki má afskrifa „gamaldags“ kennsluhætti
fyrirlestrahalds og utanbókarlærdóms með þeim rökum einum að þeir geri
nemendur óvirka: „passíva“; því að „ef menn sökkva sér nægilega í fræðin,
gefa þeim nógu mikið af sjálfum sér, geta þeir einnig orðið skapendur“,
ekki aðeins „móttökutæki“ (I, 454). Þórarinn talar hér hvorki eins og ein-
trjáningslegur talsmaður „viktoríanskra kennsluhátta“ né boðberi svokall-
aðrar „nýskólastefnu“3 heldur miklu fremur eins og sá sem sætta vill þessi
tvö andstæðu sjónarmið með því að nýta það besta úr báðum hefðum. Þar
er Þórarinn að mörgu leyti á undan samtíð sinni. Sama gildir um tíðar hug-