Andvari - 01.01.2001, Síða 15
ÁRNI BJÖRNSSON
Snorri Hallgrímsson
Upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar markar þáttaskil í sögu lækninga og
læknisfræði á íslandi. Margir ungir læknar sem staddir voru við nám og
störf erlendis, flestir á Norðurlöndum, fluttu heim til að forða sér og
sínum undan hörmungum yfirvofandi styrjaldar. Menn trúðu því sem
raun varð á, að við hér á norðurhjaranum mundum sleppa við eitthvað
af hörmungunum. Þó urðu nokkrir innlyksa í styrjaldarlöndunum en
komu heim fljótlega eftir að styrjöldinni lauk. Flestir þessara lækna
höfðu aflað sér sérþekkingar á mismunandi sviðum og mismunandi
lengi en óhætt er að fullyrða að koma þeirra var upphafið á „sérfræði-
væðingu“ íslenskrar læknisfræði, sem hefur haldið óslitið áfram æ síðan
og fylgt þar að mestu þróuninni í læknisfræði í öðrum löndum. Hér voru
að vísu starfandi sérfræðingar í skurð- og lyflækningum, augnlækning-
um, háls-, nef- og eymalækningum, geislalækningum og meinafræðum,
en flestir þessara lækna stunduðu almennar lækningar með sérgreinum
sínum og voru fáliðaðir. Heimilislæknirinn var ennþá burðarás læknis-
þjónustunnar og flestir nýju sérfræðingarnir stunduðu í byrjun bæði sér-
fræði- og heimilislækningar, en alþýða manna taldi að sémámið væri
eiginlega viðbót við almenna læknanámið og því urðu margir sérfræð-
inganna vinsælir heimilislæknar. Spítalastörf vom líka svo illa launuð
að nær ógerlegt var að lifa á þeim, allra síst fyrir fjölskyldumenn.
Landspítalinn ásamt Rannsóknarstofu Háskólans var stærsta lækn-
ingastofnun landsins en St. Jósepsspítalinn í Landakoti og sjúkrahúsið
á Akureyri fylgdu á eftir. í Reykjavík voru auk stóru spítalanna stofn-
anir eins og sjúkrahús Hvítabandsins og Sólheimar, báðar reknar af
einkaaðilum, sem nýttar voru bæði fyrir lyf- og handlækningar. Eng-
inn sérmenntaður svæfingarlæknir var í landinu. Skurðlæknarnir
deyfðu sjálfir og svæfingar önnuðust læknastúdentar og hjúkrunarkon-
nr á stærri sjúkrahúsunum, en á landsbyggðinni var notast við presta,
lögregluþjóna og jafnvel bifvélavirkja.