Andvari - 01.01.2001, Blaðsíða 128
126
ÞORSTEINN ÞORSTEINSSON
ANDVARI
Þið segið sjálfsagt að bíll sem ekur framhjá sé algjörlega hlutlægt fyrirbæri
og komi ykkur lítið við. Ég skal játa að það er þægilegra þannig - já miklu
þægilegra - en því hefur samt stundum verið þannig varið, einkum ef ég hef
séð út um gluggann rauð ljós fjarlægjast og hverfa, að ég hefði viljað gefa
nokkuð til að aka dálítinn spöl í bíl, til dæmis seint um kvöld, um upplýsta
borg, stíga út og finna fólk allt í kring, tala við fólk, knýja nýrra dyra ...
hefði þess verið kostur.
Kvæðið er annað tveggja prósaljóða í Ljóðum 1947-1951. Bæði sýna þau
mikið vald yfir því vandasama formi. Formið er vandasamt af því að það þarf
að sameina ýmsar eigindir ljóða - þéttleika, skipulagða hrynjandi, jafnvel
myndmál og vísanir - ytra búningi lauss máls. Það einkennir þessi ljóð Sig-
fúsar ennfremur, einsog mörg góð prósaljóð, að þau eru hringlaga ef svo
mætti segja, og niðurlagið lokar hringnum.
„Þetta er Vífilsstaðaljóð," segir Olga Óladóttir sem var góð kunningjakona
Sigfúsar um það leyti sem ljóðið var að líkindum ort, og hafði sjálf verið
fjögur ár á Vífilsstöðum. „Sigfús situr þarna og horfir niður Vífilsstaðaveg-
inn á eftir bílunum." Ekki er ósennilegt að þetta sé rétt til getið, að þarna sé
að minnstakosti að finna kveikju ljóðsins. Sigfús útskrifaðist af Vífilsstöðum
í apríllok 1950 eftir um sjö mánaða vist og ljóðið gæti verið ort þar eða
skömmu á eftir. Ef svo er má segja að hér hafi vel tekist til að snúa persónu-
legri reynslu í skáldskap.
Ef undan er skilin hugleiðing í seinni hluta ljóðsins, er það mynd - af bfl
sem fer framhjá og hverfur og af ýmsu eftirsóknarverðu sem ljóðmælanda er
meinaður aðgangur að - og myndin er tákn. Svo notað sé orðalag úr tákn-
fræðinni þá er ljóðið sjálft samfelld táknmynd, en táknmiðið felst í heiti þess:
„Um frelsi“. Ljóðið sýnir vel þann vöxt táknmyndar á kostnað táknmiðs sem
mjög einkennir nútímaljóð.30 Það er einnig gott dæmi um það sem T. S. Eliot
kallaði hlutlœga samsvörun.
Ljóðið fjallar um frelsi og andstæðu þess, ófrelsi, en það gerir það ekki
með útlistunum eða rökræðu um hugtök, heldur með því að bregða upp
mynd, það er allt ein myndhverfing. Áhrifamáttur þess byggist ekki síst á
upptalningu ljóðmælanda í lokin á því sem hann langar til en á þess engan
kost að gera. Hann getur því ekki tekið þátt í þeirri „leit að hætti að lifa“ sem
bókin lýsir aftur og aftur sem verðugu verkefni manna.