Andvari - 01.01.2001, Qupperneq 36
34
ÁRNI BJÖRNSSON
ANDVARI
íslands. í máli því sem hér hefur verið fram borið, hefur verið reynt að
varpa dálitlu ljósi á fyrirmyndina að annarri þessara brjóstmynda, próf.
Snorra Hallgrímsson, sem tók við af fyrirmynd hinnar brjóstmyndar-
innar, próf. Guðmundi Thoroddsen. Báðir voru í fararbroddi í skurð-
lækningum í landinu meðan þeir lifðu og vörpuðu ljóma á fræðigrein-
ina og Landspítalann, hvor með sínum hætti.
Báðir höfðu þessir menn sótt framhaldsmenntun sína í skandin-
avískar lækningastofnanir, þar sem yfirlæknirinn var Yfirlæknir og
prófessorinn Prófessor. Skandinavíska hefðin var rótgrónari í Guð-
mundi en Snorra, en báðir þéruðu þeir stúdentana. Guðmundur var
skáld, sagnamaður og mikill húmoristi. Því voru sögur hans oft með
ívafi glettinnar sjálfsgagnrýni. Snorri notaði líka sögur við kennsluna,
en sögur hans voru jarðbundnari. Guðmundur var húmanisti, en Snorri
maður verkanna. I hans tíð breyttist viðhorfið til yfirlækna í þá veru að
þeir voru ekki lengur ósnertanlegir og þéringar í læknadeild lögðust
niður með honum.
Tvennt heldur nafni læknis á lofti eftir dauða hans. Annars vegar
orðstír hans sem læknis og líknara, hins vegar sá arfur sem hann lætur
eftir sig af læknavísindum í rituðu máli. Fyrri þátturinn lifir í minni
sjúklinganna og þokar því í skuggann þegar þeir hverfa af sjónarsvið-
inu í tímans rás. Síðari þátturinn ræðst af mati framtíðarinnar á því sem
ritað hefur verið, sumt heldur velli og geymist, annað úreldist og
gleymist.
Okkur sem unnum með og undir stjórn próf. Snorra Hallgrímsson-
ar, koma ósjálfrátt stundum í hug orð listaskáldsins Jónasar Hallgríms-
sonar: „Nú er hún Snorrabúð stekkur“. Það er ekki af því að við van-
metum störf þeirra kollega sem þar starfa, af kunnáttu og heilindum,
heldur vegna þess að þeir neyðast til að vinna undir ofstjórn misviturra
embættis- og stjómmálamanna, sem spyrja hvað það kostar að lækna
og líkna. Sú hugsun var víðsfjarri hugmyndaheimi „hans Snorra“, sem
grundvallaðist á því að þeir sem lækningar þurfa skuli læknaðir og
þeim sem eru líknar þurfi, skuli líknað, hvað sem það kostar.