Andvari - 01.01.2001, Page 54
PÁLL BJÖRNSSON
Að mynda borgaralegt samfélag -
á hestbaki
s
Heinrich Brockhaus á Islandi sumarið 1867
Um nónbil föstudaginn tuttugasta og fyrsta júní 1867 lagðist póstskipið
Arcturus við festar í Reykjavík eftir tólf daga siglingu frá Kaupmannahöfn.
Skipið hafði lagt upp á hvítasunnudag níunda júní og samkvæmt áætlun haft
viðkomu í Grangemouth á Skotlandi og Þórshöfn í Færeyjum. Með skipinu
komu tuttugu og átta farþegar og að venju taldi Þjóðólfur upp nöfn allra full-
orðinna. Upptalningin endurspeglaði stigveldi samfélagsins því að hinna
valdamestu var getið fyrst og greinilega tekið fram í fylgd hvaða karlmanns
hver einstök kona var. Það hefði orðið nokkur blóðtaka fyrir landið ef Arctur-
us hefði horfið í hafið vegna þess að á meðal farþega voru nokkrir af helstu
fyrirmönnum þess, Hilmar Finsen stiftamtmaður, Helgi Thordersen biskup,
Jón Hjaltalín landlæknir, Benedikt Sveinsson yfirdómari og Jón Sigurðsson
forseti. Þá voru nokkrir af umsvifamestu kaupmönnum landsins um borð, allt
menn af erlendum uppruna.1 Raunar voru flestir farþegar úr hópi efnafólks
enda vart á færi annarra að taka sér far með skipinu: Fargjaldið milli Reykja-
víkur og Kaupmannahafnar kostaði fjörutíu og fimm ríkisdali en áttatíu dali
ef fólk keypti sér far fram og til baka, en það jafngilti tæpum þremur kúgild-
um. Þá kostaði fullt fæði án vínfanga átta mörk á dag eða ríflega einn dal.2
Flestir farþeganna voru ferðavanir, einkum þó kaupmennimir sem sumir
hverjir höfðu siglt þessa leið allt að fjörutíu sinnum fram og til baka.3 Einnig
voru erlendir farþegar með skipinu, þar á meðal maður einn af Saxlandi,
Heinrich Brockhaus, „góðfrægur bókasölumaður frá Leipzig“, eins og Þjóð-
ólfur orðaði það.
Forstjóri og fagurkeri
Heinrich Brockhaus (1804-1874) var forstjóri stærsta og líklega þekktasta
bókaforlagsins á þýska málsvæðinu um hálfrar aldar skeið, Verlag F. A.