Andvari - 01.01.2001, Síða 68
66
PÁLL BJÖRNSSON
ANDVARI
efnahag landsins í norðri - ferðalagið hafði orðið honum að sannri menntalind.
Hann var því sporgöngumaður upplýsingarmanna, einstaklingur sem þyrsti í
breiða, almenna menntun og var tilbúinn til að leggja mikið á sig til að ná því
takmarki. Ferðalagið varð honum jafnframt aðferð til að fjarlægjast þá sam-
landa sína sem hann taldi að hefðu ekki náð sama menntunar- og þroskastigi
og hann sjálfur: Hann „aðraði" og „jaðraði“ þá með því að leggja land undir
fót en forsenda ferðanna var auðvitað sterk efnahagsleg staða hans sjálfs.
I förinni til Islands mættust tveir menningarheimar, heimur hins frjáls-
lynda stórborgara og borgarbúa annars vegar og íhaldssöm og tiltölulega
kyrrstæð veröld hins strjálbýla íslenska sveitasamfélags hins vegar. I raun var
Brockhaus sífellt að mæla mót sinnar eigin heimsmyndar við það sem hann
sá og upplifði á íslandi. Á hestbaki umskapaði hann í huga sínum það sem
fyrir augu bar, lagði grunninn að nýju borgaralegu samfélagi þar sem íslensk-
ir karlar tækju sig saman af fúsum og frjálsum vilja, stofnuðu samtök til að
vinna að framfaramálum, að brúa ár, planta trjám, stofna söfn og svo fram-
vegis. Og vissulega voru hugsmíðar af þessu tagi ekki óalgengar meðal
erlendra ferðamanna á Islandi á þessum tíma.81 Sú áhersla sem Brockhaus og
skoðanabræður hans lögðu á uppeldi einstaklinganna hafði í för með sér, að
þeir sem ekki höfðu (eða gátu) uppfyllt þau inntökuskilyrði sem krafist var,
stóðu utan við áhrifasvið hins nýja borgaralega þjóðfélags. Á nítjándu öld
voru konur augljóslega stærsti einstaki hópurinn sem var utangarðs og mætti
því tala um karllæga forsjárhyggju, því samkvæmt hugsjónum Brockhaus
áttu menntuðustu eða best ræktuðu íslensku karlmennirnir að varða veginn
inn í þjóðfélag morgundagsins.
Að leiðarlokum
För Heinrichs Brockhaus til íslands var á enda. Póstskipið var senn tilbúið til
brottfarar og kominn tími til að kveðja Siemsen fjölskylduna.82 Ekki vildu
hjónin þiggja greiðslu fyrir gistingu og uppihald, og því segist Brockhaus
hafa gefið þjónustufólkinu ríkulegt þjórfé, en einnig ætlaði hann senda fjöl-
skyldunni gott úrval af bókum forlags síns. Fyrir utan Brockhaus og Svend-
sen stigu aðeins tveir farþegar um borð, kaupmennimir Knudtzon og Lefolii.
Fjölmörg hross voru hins vegar með í för enda ætlaði skipið ekki lengra en
til Liverpool, en eins og kunnugt er var íslenski hesturinn þá orðinn eftirsótt
dráttardýr í breskum námagöngum.
Brockhaus kom til Liverpool þann tíunda ágúst, rúmum tveim mánuðum
eftir að hafa lagt upp frá Kaupmannahöfn. Nokkrum dögum síðar sagði hann
í bréfi til fjölskyldu sinnar: „Ég er yfir mig ánægður með það að ég lét ekk-
ert aftra mér frá því að hrinda uppáhaldsáætlun minni í framkvæmd og nú get