Andvari - 01.01.2001, Page 145
ANDVARI
AÐ EIGA SÉR STAÐ
143
milli þeirra.“ (VG 9). Veggurinn, sem stundum birtist raunar sem glerveggur
í sögum Svövu, er því einnig veggur á milli einstaklinga og á milli kynja. Og
jafnframt því sem sum verk Svövu eru mögnuð rannsókn á hugarfari kalda
stríðsins, ígrundar hún af einurð þá stofnun sem þrátt fyrir alla sína kosti
býður upp á kalt stríð, átakanlega gagnkvæmni öryggis og öryggisleysis, í
stuttum eða löngum tímabilum: hjónabandið.
II
En ég ætla ekki að hverfa alveg strax frá samleik grjótveggs og sérrís. Þegar
veislan er hafin segir m. a.: „Sérríglösin spegluðust í silfurbakka; í baksýn
grjótið sem var einu sinni í fjalli, en stóð nú tamið og undirgefið í snyrtilegri
hleðslu [...]“ (VG 13). Og í lok sögunnar stendur Snorri undir grjótveggnum
og hefur fyllst örvæntingu. Hann leitar að augum konu sinnar og finnst að
„aðeins eitt dygði honum nú: að þau gætu horfzt í augu núna [...]. En hann
sá ekki í augu hennar. Hún var önnum kafin að bjóða meira sérrí.“ (VG 16).
Þannig lýkur sögunni, í einskonar tómarúmi, sem við finnum einnig í
öðrum sögum eftir Svövu, og stundum er raunar nefnt því nafni. I sögunni
„Fymist yfir allt“ í bókinni Undir eldfjalli er aðalpersónan stúlka sem er í
ýmsum skilningi á landamærum, stödd á brotalínu þar sem hún fær ekki
fótað sig. Einu sinni fer hún með föður sínum í heimsókn til gamallar konu
sem réttir henni brjóstsykursmola. Stúlkan hefur í huga sér sogast inn í
ævintýri (en einkenni þeirra má víða sjá í verkum Svövu) og er nú sannfærð
um að hún sé að fá eitraðan brjóstsykur og faðir hennar gerir ekki annað en
fylgjast með: „Ákvörðun um hvort hún ætti að lifa eða deyja var í hennar
eigin höndum. Allt var kyrrt. Telpan var í tómarúmi." (UE 58). í sögunni
„Myndir“ í Veizlu undir grjótvegg sjáum við konu sem er á eirðarlausri
„göngu um húsið“, staðnæmist við glugga, klukkan tifar afskiptalaus „eins
og harðstjóri sem í fyrsta sinn beitir þræl sinn þeim duttlungum að snúa við
honum baki. Engin hvöss fyrirskipun klýfur loftið; engin lítilsvirðandi þögn
vandar um við hann. Hann er í tómarúmi, hefur á engan að treysta nema sjálf-
an sig. Og hann kemst að því að ekkert vill hann síður.“ (VG 75).
Þetta tómarúm verður til þegar ekkert í umhverfinu er til að styðjast við,
maður glatar kennd sinni fyrir því að vera á vísum stað; en í slíku staðleysi
má segja að maður verði sjálfur að „stað“, þó ekki sé nema vegna þess að
maður finnur til lílcamans sem massa, sem efnis sem tekur ákveðið rými.
Hugsunin, vitundin, þráin, þurfa þó ekki að passa inn í þetta líkamsrými og
geta jafnvel verið í uppreisn gegn vanabundnum myndum þess og mörkum.
Sú tvíhyggja anda og efnis sem stýrir lífi okkar getur farið öll á skjön og þar
með sú festa sem tengist kyngervi okkar og þroska. Þetta er reynsla sem flest-