Andvari - 01.01.2001, Page 150
148
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON
ANDVARI
eins skil og Svava með þessari sögu.“3 Konan í sögunni er raunar mjög á
báðum áttum hvað varðar samband sitt við steinsteypuna, því að: „Þessu húsi
var ekki ætlað að þenja út skilningarvitin“ (LE 109). Líkaminn og vitundin
búa með vistarverunni, eru á vissan hátt leigjendur hússins, en sjálfsveran
getur samt ekki fallið saman við heimilið, þessa skel sína.
Svava hefur snemma fengið áhuga á að kafa undir yfirborð þessa sögu-
sviðs sem oft er líkt og sjálfgefinn þáttur í sagnagerð: húsnæði sem tilvistar-
svið og spegill mannverunnar (og raunar er hið samsetta orð hús-nœði í senn
hugljómandi og kaldhæðið í þessu samhengi). Elsta saga Svövu sem til er á
prenti, eftir því sem ég kemst næst, heitir „Konan í kjallaranum“. Nítján ára
gömul sigraði hún með þeirri sögu í smásagnasamkeppni tímarits Lífog list
og sagan birtist í tímaritinu í júlí 1950 (1. árgangi., 4. hefti, s. 8. Ef við leyf-
um okkur að miða við þessa sögu má því segja að Svava hafi átt hálfrar aldar
rithöfundarafmæli í fyrra, árið 2000). Svava hefur ekki birt þessa sögu í
bókum sínum og telur hana kannski til bemskubreka í ritlistinni, en sem inn-
legg í raunsæishefð íslensku smásögunnar stendur þessi saga vel fyrir sínu.
Híbýlum er hér háttað með táknrænu móti; vitundarmiðja sögunnar er leigj-
andi, sem teljast má forveri hins fræga útlenda leigjanda sem við þekkjum,
en þessi er stúdent úr sveit (að vissu leyti ,,útlendingur“) sem leigir „herbergi
á annarri hæð í húsi sem stóð vestur í bæ“; herbergið er hinsvegar í eigu kjall-
arafjölskyldunnar og þannig er stúdentinn á írónískan hátt settur undir fólk-
ið sem býr fyrir neðan hann. Ekki nóg með það heldur er konan í kjallaran-
um að missa manninn sinn þegar sagan hefst. Og hvað merkir það? Eins og
segir svo skemmtilega í sögunni: „Húseigandinn var konan í kjallaranum.“
Stúdentinn fylgist grannt með kjallarabúum (er á sveimi úti í glugga eins og
lítið ,,krabbadýr“), og það verður ljóst að þangað beinast margbrotnar þrár
hans. Hann fýsir í þetta heimili, og líklega bæði sem bam og karlmaður.
Hann lætur á það reyna hvort konan bjóðist til að festa tölu á skyrtu hans
þegar eiginmaðurinn er heima í veikindaleyfi, eins og til að keppa við hann
á heimavelli (stúdentinn þarf að láta í minni pokann). Og þegar eiginmaður-
inn deyr og konan kemur ekki út dögum saman þá „þráði [stúdentinn] að fara
niður til hennar“. Þegar hann lætur verða af því tilkynnir hún honum að hann
þurfi að flytja út:
„Ég get fengið leigjanda, sem borgar helmingi hærri húsaleigu en þú og - þú skilur
- ég þarf á peningum að halda. Ég vona, að það verði ekki langt þangað til þú getur
flutt."
Svo lokaði hún dyrunum og hann stóð einn eftir fyrir utan.
Konan í kjallaranum var orðin ekkja.
Eftir það sem á undan er farið mega þessi endalok teljast til þess raunsæis-
lega bakslags sem stundum er kennt við „rómantíska íróníu“, auk þess sem