Andvari - 01.01.2007, Page 18
16
KRISTÍN ÁSTGEIRSDÓTTIR
ANDVARI
Frá ísafirði til Bessastaða
Skúli Thoroddsen og Theodora Guðmundsdóttir hittust fyrst á heim-
ili frænku þeirra beggja, Katrínar Þorvaldsdóttur Sívertsen og Jóns
Árnasonar, 14. mars árið 1884 sem eftir það var kallaður „baunadag-
urinn“ vegna þess að á borðum var baunasúpa. Haldið var upp á þann
dag í fjölskyldunni löngu eftir að þau hjón voru öll. Þegar Skúli og
Theodora gengu í hjónaband haustið 1884, heima hjá Ástríði og Pétri
Thorsteinsson á Bíldudal, tengdust fjölskyldur sem tekið höfðu þátt í
sjálfstæðisbaráttunni um árabil, studdu kvenréttindi og að minnsta kosti
annar hver maður var skáldmæltur. Málararnir, leikararnir og tónlist-
arfólkið komu fram þegar þær listir tóku að blómstra hér á landi. Skúli
hafði kynnst sósíalismanum á námsárum sínum í Kaupmannahöfn og
átti sú stefna eftir að fylgja fjölskyldunni í margar kynslóðir.20 Baráttan
fyrir samfélagi sósíalismans hafði mikil áhrif á líf Katrínar Thoroddsen
læknis. Segja má að foreldrar Katrínar hafi verið hennar mikilvægustu
fyrirmyndir en frændfólk og vinir höfðu án efa sín áhrif.
Skúli var skipaður sýslumaður ísafjarðarsýslu og bæjarfógeti í
Isafjarðarbæ árið 1884. Embættið hefur gefið góðar tekjur því á ísa-
fjarðarárunum komst hann í góð efni. Auk embættisstarfa rak hann
verslun, kom upp prentsmiðju og gaf út sitt eigið málgagn, Þjóðviljann,
sem kom að góðu gagni eftir að hann varð þingmaður árið 1890. Skúli
beitti sér af krafti í þágu aukinna mannréttinda, jöfnuðar og gegn hinu
danska valdi og fulltrúum þess en þar var landshöfðinginn efstur á
blaði. Árið 1892 var Skúla vikið úr embætti vegna meintra embættisaf-
glapa og hófust þá hin svokölluðu „Skúlamál“ sem voru fyrst og fremst
af pólitískum toga. Málið fór alla leið upp í Hæstarétt í Danmörku og
var Skúli að lokum sýknaður.21
Stjórnmál þessara ára voru hatrömm og öllum brögðum beitt til að
klekkja á andstæðingunum. Mikið gekk á í Isafjarðarbæ meðan rann-
sókn stóð yfir á embættisfærslum Skúla og höfðu þessi pólitísku átök
eflaust mikil áhrif á fjölskylduna. Kristín Thoroddsen fæddist árið
1894 meðan allt var enn í háalofti. María Thoroddsen segir í dagbók
sinni að Kristín hafi verið afar einbeitt í stjórnmálum og hefði Katrín
læknir skýrt það með því að Theodora hefði gengið með hana meðan
Skúlamálin voru í algleymingi.22
Þegar Katrín fæddist 1896 hafði Hæstiréttur kveðið upp sinn dóm
(1895) og hreinsað mannorð Skúla. Ekki nóg með það. Álþingi sam-