Andvari - 01.01.2007, Page 46
44
KRISTÍN ÁSTGEIRSDÓTTIR
ANDVARI
✓
I skugga atómsprengjunnar
Haustið 1945 fór að kvisast að Bandaríkjamenn sem höfðu hér nokkurt
herlið þótt heimsstyrjöldinni væri lokið hefðu farið fram á að gerður
yrði samningur um þrjár bandarískar herstöðvar til 99 ára.138 Af því
tilefni skrifaði Katrín grein sem hún kallaði „Eyðingu íslandsbyggðar“.
Greinin er á mjög þjóðernislegum og harðorðum nótum í anda þeirrar
orðræðu sem sósíalistar höfðu tileinkað sér þegar hér var komið sögu.139
Katrín líkti væntanlegu hlutskipti Islendinga við hlut þrælsins og skækj-
unnar. Hún sagði að sagan um herstöðvarnar hefði borist sér til eyrna úr
mörgum áttum í forgylltum útgáfum en gyllingin á sögunni „var ekki af
íslenskum uppruna“.140 Hún lýsti afleiðingum hernámsáranna og sagði
síðan: „Islenska þjóðin mundi aldrei af fúsum vilja bera hlekkina að
hálsi aftur og þaðan af síður mundi hún vitandi vits velja sér hlutskipti
skækjunnar, sem föl er fyrir fé, fyrirlitin af sjálfri sér og öðrum.“141
Hún sagði eitt dagblaðanna þegar hafa tekið landráð á stefnuskrá
sína: „En bak við það blað stóð til skamms tíma allfjölmennt samsafn
afturhaldsmanna, sem eru ýmist gjörblindaðir af hræðslu við viðgang
sósíalismans og hatri á íslenskri alþýðu, eða svo heimskir, að þjóð-
hættulegt er.“ Ef hér yrðu reistar erlendar herstöðvar yrðu íslendingar
álitnir úrhrök, hataðir af smáþjóðum vegna þessa slæma fordæmis og
stórþjóðir myndu líta á þjóðina sem óvin vegna þess að landið hefði
verið selt undir kjarnorkusprengjustöðvar. Þetta mál boðaði ekkert
annað en eyðingu þjóðarinnar, „en landið, sem hún byggði, var hið
fyrsta, sem gereyddist í kjarnorkustyrjöldinni miklu.“142 Það var mikil
svartsýni í grein Katrínar, reiði og fordæming í garð andstæðinganna
sem hún sakaði um hræðslu, hatur og heimsku. Eflaust gætti ótta við
framtíðina en þannig var pólitísk orðræða þessa tíma að þróast eins og
berlega kom í ljós á næstu árum. Menn báru hver öðrum á brýn svik,
landráð og undirgefni við stórveldin. Heimurinn hafði orðið áhorfandi
að afleiðingum fyrstu kjarnorkusprengjanna sem varpað var á Japan
aðeins nokkrum mánuðum áður, en þær vöktu mikla skelfingu og voru
notaðar sem rök gegn herstöðvum Bandaríkjamanna.143