Andvari - 01.01.2007, Page 128
126
ÞÓRIR ÓSKARSSON
ANDVARI
„Den islandske Literaturs Charakteristik“ (1846).3 Af skrifum um erlent efni
ber aftur á móti hæst áðurnefnda meistaraprófsritgerð Om Lord Byron og 165
blaðsíðna samkeppnisritgerð við Hafnarháskóla, Om den nyfranske Poesi frá
1841, þar sem leitast er við að svara spurningunni hvort skáldskaparsmekk og
tilfinningu hafi farið fram eða aftur í Frakklandi á síðustu árum og hver sé
ástæða þess. Fyrir þá ritgerð hlaut Grímur önnur verðlaun (,,accessit“) og var
hún gefin út 1843 ásamt 67 blaðsíðna formála höfundar.4 Þá minnast marg-
ir vinsamlegs ritdóms Gríms um H.C. Andersens samlede Skrifter (1855)5
sem ævintýraskáldið taldi sjálft „den fprste ubetinget [anjerkjendende Dom
her i Danmark over mig som Digter [...] smukt skrevet, dertil dygtigt, med
Kjendskab og Kjærlighed. Alle som have læst den synes særdeles om den“.6
Bókmenntaástundun Gríms vakti talsverða eftirtekt danskra menntamanna,
þótt hrifning þeirra væri að vísu ekki óskipt, og veitti konungur honum styrk
til tveggja ára utanlandsferðar að námi loknu til að efla kunnáttu sína í þýsku,
frönsku og ensku. Meðal helstu meðmælenda Gríms um þann styrk var kenn-
ari hans í fagurfræði, Adam Oehlenschláger, skáld og prófessor.7 Þetta sýnir
að málsmetandi menn viðurkenndu ekki aðeins Grím fyrir verk sín heldur
voru líka tilbúnir að veðja á hann. Telja má einnig trúlegt að skrif Gríms
hafi stuðlað að skjótum frama hans innan dönsku utanríkisþjónustunnar á 6.
áratugnum. A þessum tíma var að minnsta kosti fremur algengt að ungir og
efnilegir menn kæmu sér á framfæri með því að „drabba í skáldskap“, svo að
vitnað sé í lýsingu Ingibjargar Jónsdóttur, móður Gríms, þegar hún frétti að
hann væri orðinn fráhverfur lögvísi en héldi sig helst til fagurbókmennta.8
Ahugi Gríms á fögrum fræðum fór ekki heldur framhjá ungum íslenskum
skáldum og menntamönnum á borð við Benedikt Gröndal Sveinbjarnarson
(1826-1907) og Gísla Brynjúlfsson (1827-1888), auk þess sem Grímur hafði
með samneyti sínu við þá veruleg áhrif á þekkingu þeirra á evrópskum skáld-
skap og heimspeki og afstöðu þeirra til þessara mennta. Benedikt Gröndal
getur þess t.d. í sjálfsævisögu sinni, Dœgradvöl, að Grímur hafi í stuttu fríi á
Islandi veturinn 1843-1844 kennt sér og öðrum skólapiltum í Bessastaðaskóla
frönsku og frætt þá um enskar, franskar og þýskar samtímabókmenntir og
heimspeki Hegels, Rasmus Nielsens og Spren Kierkegaards. Þá hafi hann
gefið sumum þeirra rit sitt um franskan nútímaskáldskap:
Hann var þá hrifinn af frönskum skáldskap - mig minnir hann væri þá nýbúinn að rita
„Om den nyfranske Poesi“, sem hann fékk „accessit" fyrir, að minnsta kosti gaf hann
mér og fleirum bókina, en annars var Byron það skáld, sem Grímur lagði sig mest eftir,
og ritaði hann ágæta bók um hann, og hefur sú bók sjálfsagt tekið flestu fram, sem í þá
daga var ritað á dönsku um skáldskap.9
í Dœgradvöl kemur sömuleiðis fram að Gröndal - sem yfirleitt var heldur
spar á lofsyrði þegar innlendir samferðamenn hans áttu í hlut - leit engum