Andvari - 01.01.2007, Page 140
138
ÞÓRIR ÓSKARSSON
ANDVARI
baráttu- og sigursaga fslensks „iðnaðarmannssonar“ sem haslar sér völl sem
„ótrauður riddari þekkingarinnar“ (239) í framandi samfélagi þar sem hann
er í senn „landsbyggðar- og nýlendublók og þar af leiðandi annars flokks
maður“ (20) en endar í sögulok við hlið S0rcn Kierkegaards „í fremstu röð
þeirra hugsuða á Norðurlöndum sem eru að endurskilgreina sjálfsveruna“
(240). Þó varð hann „aldrei spámaður í sínu föðurlandi“ (239). Það varð
sokkakaupmannssonurinn Kierkegaard svo sem ekki heldur fyrr en seint og
um síðir, né heldur öreigabarnið H.C. Andersen, svo að ekki sé minnst á þá
breiðu fylkingu „annars flokks“ sveitamanna, borgarasona, gyðinga, kvenna
og annarra utangarðsmanna sem knúðu árangurslítið dyra í dönsku mennta-
lífi á dögum Gríms og eru nú margir hverjir nær algjörlega gleymdir, þótt
vafalaust megi færa rök að því að þeir hafi verið í fremstu röð skálda og
hugsuða samtímans.
Þennan síðastnefnda flokk fyllir t.d. góðkunningi Gríms og sigurvegarinn í
ritgerðarsamkeppninni um franska nútímaskáldskapinn, kaupmannssonurinn
Peder Ludvig Mpller (1814-65). f Dansk litteraturhistorie 5 (1984) er fullyrt
að hann hafi án efa verið best gefni bókmenntagagnrýnandi og fagurfræð-
ingur Dana á 5. áratug 19. aldar,34 enda hreppti hann tvívegis gullpening fyrir
samkeppnisritgerðir við Kaupmannahafnarháskóla og á tímabili litu margir á
hann sem líklegan arftaka Oehlenschlágers sem prófessors í fagurfræði. Auk
þess var hann ágætt ljóðskáld og orti m.a. „Arngerðarljóð“ (,,Sjælevandring“)
sem Jónas Hallgrímsson þýddi á síðasta æviári sínu. Mpller þessi hlaut þó
aldrei meiri viðurkenningu eða frama fyrir ritstörf sín en að verða illa laun-
aður íhlaupamaður í dönsku utanríkisþjónustunni um örfárra ára skeið og
fá að deyja í París langsjúkur og bláfátækur. Samanborið við hann þurfti
Legationsraad Grímur Thomsen a.m.k. ekki að kvarta yfir vistinni hjá Goð-
mundi kóngi á Glæsivöllum.
Því verður ekki neitað að túlkun Kristjáns Jóhanns Jónssonar á lífshlaupi
Gríms er í senn áhugaverð og vekjandi og því þarft innlegg í umræðuna um
bókmenntir og skáld 19. aldar. Það má hins vegar velta því fyrir sér að hve
miklu leyti hún eigi rætur að rekja til póstmódernískrar ævisöguritunar sam-
tímans þar sem sannleikurinn er í eðli sínu afstæður og segir kannski meira
um þann sem skrifar en hinn sem skrifað er um. Það er að minnsta kosti ærið
langur vegur frá henni til myndarinnar sem oftast hefur verið dregin upp af
Grími Thomsen, að ekki sé minnst á reykvísku slúðursöguna frá 1845 þar
sem hann rennur bókstaflega saman við Byron lávarð. Þar með er ekki sagt
að þær túlkanir gefi sannari og betri mynd af Grími og svari hans við kalli
tímans.