Andvari - 01.01.2007, Síða 170
168
HANNES HÓLMSTEINN GISSURARSON
ANDVARI
hans í heimspeki í Harvard, Robert Nozick, heldur því fram, að frjálst val ein-
staklinganna raski sérhverri þeirri tekjuskiptingu, sem heimspekingar hugsi
upp. Tökum einfalt dæmi. Tekist hefur að koma á réttlátri tekjuskiptingu á
íslandi eftir forskrift einhvers heimspekings, til dæmis Rawls. Hingað kemur
heimskunnur hagfræðingur, Milton Friedman að nafni, og auglýsir fyrirlest-
ur í Súlnasal Hótel Sögu. Aðgangseyrir er tíu þúsund krónur. Fyrirlesturinn
sækja fimm hundruð manns, en kostnaður er ein milljón króna. Eftir hann er
Friedman fjórum milljón krónum ríkari, en fimm hundruð manns tíu þús-
und krónum fátækari hver. Tekjuskiptingin er orðin ójafnari. Aheyrendur eru
hins vegar hinir ánægðustu, enda stórum fróðari. Hvar er ranglætið? spyr
Nozick.14 Ensk-austurríski hagfræðingurinn Friedrich von Hayek hefur bent á
annað sjónarmið ekki síður mikilvægt. Tekjuskipting sú, sem sprettur upp úr
frjálsum viðskiptum á markaði, veitir ómetanlegar upplýsingar um, hvar hæfi-
leikar manna nýtast best öðrum. Þegar þessari tekjuskiptingu er raskað með
valdboði, týnast slíkar upplýsingar með þeim afleiðingum, að framleiðsla
dregst saman og minna verður til skiptanna.15
Rawls horfir til lítilmagnans. Það er athyglisvert sjónarhorn, en fleiri eru til.
Vissulega munu hagsýnir menn undir fávísisfeldi reyna að verjast versta hugs-
anlega kosti um framtíðarhag sinn. En það þarf ekki að leiða til þess, að þeir
vilji hámarka lágmarkið, heldur aðeins tryggja, að lágmarkið verði bærilegt.
Þeir vilji ekki aðeins öryggi, heldur líka það fyrirheit, sem frelsi til áhættu
veitir, ef til vill í hæfilegri blöndu. Þá er og vandséð, hvernig Rawls skilgreinir
hina verst settu á rökréttan hátt. Eru það hinir tekjulægstu eða hinir hæfileika-
minnstu? Skiptir engu máli, hvers vegna menn eru í hópi hinna verst settu?
Ofdrykkjumaður og letingi skipa sér báðir af sjálfsdáðum í þann hóp, en hvorki
fatlaður maður né ellihrumur. Er átt við 1%, 5% eða 10% íbúanna? Og íbúa
hvar? Það breytir miklu, hvort miðað er við alla jarðarbúa eða íbúa einhvers
eins ríkis. Eiga menn að njóta þess, að þeir fæðast í Flórída, en ekki á Kúbu?
í Suður-Kóreu, en ekki í Norður-Kóreu? Ef miðað er við alla jarðarbúa, hvers
vegna á þá ekki að gera ráð fyrir vitsmunaverum á öðrum hnöttum, sem gætu
haft réttindi og skyldur? Ef þær eru betur settar en við, eigum við þá heimtingu
á einhverju frá þeim, og öfugt? Vandinn nær til kynslóða ekki síður en land-
svæða: Getur verið, að fórna megi hagsmunum hinna verst settu í skamman
tíma fyrir hagsmuni þeirra til langs tíma litið (eins og var sennilega hugsunin
í kommúnistaríkjunum sálugu)? Það er síðan álitamál, hvor kjörin séu betri,
að tekjulægsti hópurinn (ef hann er rökræðunnar vegna skilgreindur sem hinn
verst setti) hafi sem mestar tekjur hér og nú eða sem flest tækifæri til að hækka
tekjur sínar af eigin rammleik. Af þessu má ekki aðeins ráða, að innri mótsagn-
ir kunna að vera í kenningu Rawls, um leið og hún stríðir gegn algengum og
jafnvel fornhelgum réttlætishugmyndum, heldur líka, að hún er óræð, veitir ekki
nógu skýra leiðsögn um það, hvernig réttlátt skipulag á að vera.16