Skírnir - 01.01.1927, Qupperneq 15
8 Árni stiftprófastur Helgason. |Skírnir
legt úrlausnarefni, sem háskólinn hafði auglýst, um það
»hvort sæist votta fyrir austurlenzkri heimspeki í heilagri
ritningu eða ritum postulatímans«, og hlaut fyrir verðlauna-
gullpening háskólans. Einnig gjörðist hann starfsmaður Árna
Magnússonar-stofnunarinnar og útlagði fyrir hana á latínu
fyrri hluta Frostaþingslaga, sem hann þótti hafa leyst prýði-
lega af hendi. En honum leiddist Hafnarveran, sótti því um
Vatnsfjörð og fékk veitingu fyrir brauðinu í marz 1808. Þó
komst hann ekki frá Kaupmannahöfn fyr en á áliðnu sumri.
Sigling landa á milli var mjög ótrygg á þessum árum vegna
ófriðarins, sem yfir stóð, en ofan á það bættust hauststorm-
ar, sem skipið (»Orion«) hreppti, og kom þar að lokum, að
halda varð skipinu til Kristjánssands í Noregi til vetrarlegu.
Beint tilhlökkunarefni var það naumast á þessum árum
fyrir ungan og efnilegan mann að hverfa til íslands til að
ílendast þar. Englendingar höfðu látið greipar sópa um
landsféhirzluna og rænt þeim 35000 dölum, sem í henni
voru. Verzlun öll var í mesta ólagi vegna ófriðarins, dýr-
tíð á öllum lífsnauðsynjum og peningar sifallandi í verði.
Var því sú hugsun býsna áleitin við Árna um veturinn,.
sem hann sat teptur í Kristjánssandi, að hætta við heim-
ferðina og sækja heldur um prestembætti í Noregi, því að
þar bjóst hann við, vegna rnjög líkra staðhátta þeim, sem
hann hafði alizt upp við, að geta betur unað hag sínum
en í Danmörku. En taugarnar, sem til föðurtúna draga,
voru rammari en svo, að hann léti slíkar hugsanir ná full-
um tökum á sér. Hann vissi af foreldrum sínum fátækum
heima, og ræktarsemin við þau gjörði honum það að heilagri
skyldu að verða þeim til liðs, það sem hann gæti, og ekki
sízt vegna þess hafði hann sótt um Vatnsfjörð, að hann
vildi geta verið sem næst þeim. Og sé rétt tilgátan, sem fyr
er vikið að, að hann hafi átt unnustu úti hér, frá því er
hann dvaldist í Skálholti, þá ræður að líkindum, að einnig
það hafi rekið á eftir.
Um vorið 1809 kom Árni loks út hingað, og skömmu
eftir útkomu sína mun hann hafa haldið vestur, því að hann