Skírnir - 01.01.1927, Page 140
Skírnir] Upton Sinclair og auðvaldið í Bandarikjunum. 133
á manni sínum. Enn fremur barst talið að heilsu Sinclairs.
Frúin kvaðst vera hrædd um, að hann væri alveg að fara
með sig. Hann skrifaði bók á hverju ári. En verst væri
það, að hann yrði að gefa út bækurnar sjálfur. Það yki
svo mjög á annríki hans og áhyggjur. Ég spurði, hvort
útgefendum væri ekki hugleikið að fá að gefa bækur hans
út, svo mikið sem þær væru lesnar um víða veröld. Frú-
in sagði, að reyndar vildu útgefendurnir ná í þær; en þeir
vildu ávallt fá hinu og öðru breytt, og maður hennar væri
ófáanlegur til þess að ganga að slíkum samningum. Svo
að hann yrði að gefa bækurnar út sjálfur.
Nokkrum dögum síðar var ég staddur í Seattle, stærstu
borginni í Washingtonríkinu á Kyrrahafsströndinni. Mér
hugkvæmdist þá að nota tækifærið og kaupa eitthvað tölu-
vert af ritum Sinclairs, því að ég hafði komizt að raun um,
að þau voru ekki fáanleg í bókabúðum í Winnipeg. Mér
var þá sagt, að árangurslaust væri fyrir mig að reyna að
fá þessar bækur í bókabúðum í Seattle; bóksalar þar hefðu
þær ekki á boðstólum. Sú varð líka raunin á.
Hver er þá þessi maður, er svo einkennilega er ástatt
um, sem hér hefur lauslega verið vikið að — heimsfræg-
ur rithöfundur — veldur því með einni bók sinni, að pró-
fessorar hér og þar um Vesturálfu segja af sér embætt-
um — óvinsæll með prestunum — getur ekki náð sanm-
ingum við bóka útgefendur um að koma út bókum sínum
— getur ekki fengið rit sín seld í bókabúðum?
Hann er magnaðastur og gáfaðastur andstæðingur auð-
valdsins í Bandaríkjunum. Fyrir því stendur svo kynlega
á um hann. Líftaugin í öllum hans frægustu bókum er
fjandskapur hans við auðvaldið. Þær bækur eru margar
og langar. Það liggur í augum uppi, að ekki verður gerð
grein allrar þeirrar baráttu á nokkrum Skírnis-blaðsíðum.
En mig langar til að skýra ofurlitið frá henni.
Framan af rithöfundarferli hans tóku blöðin honum góð-
látlega. Á hann var helzt litið sem gáfaðan sérvitring,
nokkuð róttækan, en tiltölulega meinlausan. Mönnum þótti
gaman að bókum þessa unga skálds.