Skírnir - 01.01.1927, Page 204
Skírnir
Georg Brandes.
197
beiska, botnlausa fyrirlitning á hálfköruðum hugsunum og
hálfvolgum tilfinningum.
Um þessar mundir hafði Brandes aflað sér hins mesta
trausts meðal ungra og gamalla menntamanna í Danmörku.
Menn töldu honum glæsilega framtíð vissa. Sjálfur segist
hann hafa kviðið því, að braut sín yrði of bein og greið, —
að hann mundi verða spakur og makráður fyrir tímann í
virðulegu embætti við háskólann. En hann þurfti engu slíku
að kvíða, — annað nokkuð lá fyrir honum. Haustið 1871
gerðust þeir viðburðir í lífi hans, sem gerbreyttu afstöðu
hans til þeirra, sem völdin höfðu í Danmörku bæði á sviði
stjórnmála og bókmennta. Hann varð skyndilega vargur í
véum, og allar þær vonir sem hann kann að hafa gert
sér um völd og virðingu í Danmörku, hrundu um koll.
3.
í byrjun aprílmánaðar 1870 lagði Georg Brandes af
stað í langferð til útlanda og sneri ekki heim aftur fyr en
um miðsumar 1871. Hann dvaldi fyrst á Frakklandi, síð-
an um tíma á Englandi, en lengst af á Ítalíu. í þeirri ferð
fullþroskaðist hann, enda er enginn kafli í endurminning-
um hans ritaður af svo óblöndnum fögnuði og viðkvæmni,
sem sagan um þessa utanför. Einkum eru minningar hans
frá Ítalíu bjartar og yndislegar eins og bernskuminningar.
Þar var honum allt nýtt; mannfólkið, loftið, hafið, landið og
listaverkin. Hann hafði ætlað sér að komast sem lengst burt
frá átthögunum (»grundigt bort fra hjemmet«) og nú hafði
það heppnast. Hann varð fyrir því óláni og láni að sýkj-
ast háskalega þar syðra. En afturbatinn galt honum leguna
og þjáningarnar margföldu verði, því aldrei verða skiln-
ingarvit manna, — hin ytri og innri, — svo skyggn og
glögg og næm, sem þá er heilsan snýr aftur eftir langvinn-
an sjúkleika. — í þessari utanför kynntist Brandes per-
sónulega nokkrum frægustu rithöfundum álfunnar, t. d.
Taine, Renan, Mill og Ibsen. Hann hafði frá æsku til elli
þörf á að deila orðspeki við mikla menn og lag á að ná
fundi þeirra.