Skírnir - 01.01.1927, Blaðsíða 215
208
Georg Brandes.
[Skírnir
þá og raunar lengi síðan þann ófagra sið, að loka munni
þeirra manna, sem þeir hundbeittu og svívirtu, ef þeir gátu
á nokkurn hátt komið því við. íslendingar fengu stundum
að kenna á því, svo sem kunnugt er.
6.
Fjandmenn Brandesar höfðu þó annað ennþá beittara
vopn á hann heldur en hróp og árásir blaðanna. Hinn 4.
marz 1872 lézt skáldið Carsten Hauch, sem lengi hafði
verið prófessor í fagurfræði við háskólann. Hann hafði
verið kennari Brandesar og taldi hann sjálfkjörinn til þess
að taka við embættinu eftir sinn dag, enda gat það ekki
á tveim tungum leikið, að Brandes var bezt til þess fall-
inn allra danskra manna, sem þá voru uppi. Hauch hafði
— ótilkvaddur af Brandes — lýst skriflega yfir því á bana-
sænginni, að hann óskaði að Brandes yrði eftirmaður sinn
og jafnframt gert ráðstafanir um það, að þessi yfirlýsing
yrði prentuð í blöðunum. En bæði Dagbladet og Berlingske
Tidende neituðu að prenta yfirlýsinguna, er ekkja Hauchs
fór þess á leit, — svo illúðlegt var nú hatrið orðið á þessum
manni, sem fáum mánuðum áður hafði verið talinn bera af
öllum jafningjum sínum að gáfum og lærdómi! Brandes
skrifaði í dagbók sína við þetta tækifæri: »Þessum lúalega
óþokkaskap skal ég aldrei á ævi minni gleyma« — og það
efndi hann. Enda var hér ekki um hégómamál eitt að ræða.
Brandes gat vel komizt af án þess að heita prófessor, —
en hann gat ekki komizt af tekjulaus og um þessar mundir
mun hann tæpast hafa verið matvinnungur. Hann bjó enn
á heimili foreldra sinna, sem að vísu voru sæmilega efnum
búin, en alls ekki auðug, og Brandes sveið, að geta ekki
séð sjálfum sér farborða á sæmilegan hátt, þrítugur maður
með gnótt þekkingar og hæfileika. Hann komst og brátt
að raun um, að háskólakennararnir, sem flestir höfðu verið
honum mjög vinveittir hingað til, sneru nú við honum bak-
ínu og vildu annaðhvort ekkert liðsinni veita honum eða
snerust öndverðir gegn honum. Svo sem mörgum mun
kunnugt stóð prófessorsembættið í fagurfræði síðan autt