Skírnir - 01.01.1927, Page 223
216
Georg Brandes.
fSkímir
hæfileika til þess. Ungir gáfumenn hændust að honum,
enda var hann boðinn og búinn til þess að styðja þá og
greiða götu þeirra á allar lundir, allra manna fúsastur til
þess að sjá og viðurkenna hæfileika annara og trölltryggur
vinur vina sinna. Því er við brugðið, hve ástúðlegur og
eldfjörugur hann var í sinn hóp, enda var honum ekki
síður lagið að töfra menn til fylgis við sig en að telja þá
á sitt mál með skynsamlegum rökum. En ef einhverjir vina
hans eða fylgismanna brugðust undan merkjum, þá var
hann skjótur að lyfta hramminum. Sumir þeirra manna voru
ómerkilegir liðhlaupar, sem jusu rógi og svívirðingum yfir
sinn fyrri foringja, óðar en þeir voru sloppnir undan handar-
jaðri hans. Aðrir hurfu frá Brandes eingöngu vegna þess,
að þeir gátu ekki lengur átt samleið við hann, sannfær-
ingar sinnar vegna. En hann gat hvorugum fyrirgefið og
suma þessara manna blóðmarkaði hann svo, að þeir báru
þess menjar ævilangt. Umburðarlyndur var hann ekki. En
hægrimannastjórnirnar fengu að súpa seyðið af því, að hafa
egnt þenna herskáa mann á móti sér. Vinstrimannaflokkur-
inn bar að lokum fullkominn sigur úr býtum, ekki hvað sízt
vegna þess, að allir rithöfundar landsins, sem nokkuð kvað
að, veittu honum fylgi. En þeir höfðu flestir alizt upp í
herbúðum Brandesar.
9.
Fylgismenn Brandesar voru oft kallaðir Evrópu-menn
i Danmörku, og héldu fjandmenn þeirra því nafni mjög á
loft. Það átti að tákna, að þeir, og þó einkum foringi þeirra,
væru ó-danskir að hugsunarhætti og hirðulausir um þjóð-
ernismál.
Þessi óður hafði verið þulinn í Danmörku frá því er
Brandes hélt hina fyrstu fyrirlestra á háskólanum. Hann
hafði þá farið ómildum orðum um danskar bókmenntir, svo
sem fyr var getið, og staðhæft, að þær ættu ekki við-
reisnarvon, nema menningarstraumum utan úr Evrópu væri
veitt yfir hið gróðurlitla flatlendi andlegs lífs í Danmörku.
Þessi kenning kom flestum Dönum algerlega á óvart, enda