Almanak Ólafs S. Thorgeirssonar - 01.01.1944, Blaðsíða 48
Merkiskonan
Jórunn Hinriksson Líndal
Eftir Richard Beck.
Það er þegar orðinn álitlegur hópur dætra íslenzkra
frumherja vestan hafs, sem brotið hafa sér braut til æðri
menntunar, og síðan með nytsömu æfistarfi sínu á hinum
fjarskyldustu sviðum, unnið sér frægðarorð og varpað
ljóma á ættstofn sinn. Heiðursrúm á þeim bekk skipar
frú Jórunn Hinriksson Líndal, sem lést, langt um aldur
fram, á Almenna sjúkrahúsinu í Winnipeg, laugardaginn
1. nóvember 1941, aðeins rúmlega 45 ára gömul. Rættust
því á henni orð skáldsins: “Skjótt hefir sól brugðið sumri”.
Þeim mun merkilegra er það og verðugt frásagnar, hve
miklu hún fékk afrekað í þágu menningar — og annara
þjóðnytjamála á ekki fleiri starfsárum en urðu hlutskipti
hennar.
En á Jórunni Hinriksson sannaðist eftirminnilega hið
fornkveðna um eplið, sem ekki fellur langt frá eikinni.
Að henni stóð gáfað merkisfólk á báðar hendur. Hún
var dóttir hinna góðkunnu frumbyggja-hjóna Magnúsar
Hinrikssonar (frá Efra-Apavatni í Laugardal í Árnessýslu)
og kona hans Kristínar Þorsteinsdóttur (frá Haugshúsum
á Álftanesi), nú bæði látin, er bjuggu um langt skeið
myndarbúi í grennd við Churchbridge-bæ í Þingvalla
nýlendunni í Saskatchewan-fylki í Canada. Hjá þeim
ólst Jórunn upp í ramm-íslenzku andrúmslofti, því á
heimili þeirra voru íslenzkar bókmenntir og aðrar menn-
ingarerfðir vorar í hávegum hafðar, enda sýndi Magnús
Hinriksson fagurlega í verki rækt sína til ættjarðarinnar
með höfðinglegri fjárgjöf til Háskóla Islands.