Uppeldi og menntun - 01.01.2000, Page 178
HEILLANDI GLÍMA
Til dæmis tók það Pósa ekki nema nokkrar mínútur, 12 ára gamlan, að finna rök-
stuðning fyrir því að meðal náttúrlegra talna sem eru n + 1 talsins, og engin þeirra
stærri en 2n, hljóti að mega finna tvær tölur sem eru ósamþátta (þ.e. eina talan sem
gengur upp í þær báðar er 1).
Paul Hoffman segir frá kynnum Erdös og hins fræga breska stærðfræðings
G.H. Hardy sem eins og áður segir var frumkvöðull á sviði nútíma talnafræði (78).
Stærðfræðilegur heimavöllur Erdös var aftur á móti sígilda talnafræðin þar sem
beitt er aðferðum sem kallast „einfaldar" til aðgreiningar frá aðferðum nútíma
talnafræði. Hardy er ekki sagður hafa haft nokkra trú á að unnt yrði að sanna frum-
tölusetninguna sem fyrr er nefnd á „einfaldan" hátt og hann lifði það ekki að geta
samglaðst Erdös yfir sigrinum því hann lést nokkrum mánuðum áður en Erdös og
Selberg unnu afrek sitt. Hardy skrifaði hina frægu bók Málsvörn stærðfræðings, og
það var hann sem uppgötvaði hinn sjálfmenntaða indverska stærðfræðing Raman-
ujan. Er sú saga öll hin áhrifamesta og kemur fram í bók Hardys.6 Hoffman gerir
þessu skil í stuttu máli en þau eru nægilega glögg til að veita almennum lesanda
innsýn í stærðfræði þessara manna sem og mannlega þáttinn sem átti ekkert skylt
við stærðfræði en var einkar hjartnæmur, jafnvel átakanlegur.
Erdös var um tíma samtíða Einstein og Gödel við Stofnun æðri rannsókna hjá
Princeton-háskóla og um það leyti þróuðust kynni hans og mengjafræðingsins
Stanislaw Ulam sem síðar stundaði stærðfræðilegar rannsóknir á kjarnavopnum,
við hlið bandarískra eðlisfræðinga. Samvinna Ulams og Erdös varaði í hálfa öld, allt
til þess að Ulam féll frá árið 1984 (105). Er skemmst frá því að segja að umfjöllun
Hoffmans um þessa andans jöfra eykur bók hans vægi og er enn eitt dæmið um það
hve létt honum lætur að matreiða fyrir almennan lesanda sýnidæmi sem varpa ljósi
á flókin fræðasvið.
Sá stærðfræðingur annar en Erdös sem fær langstærsta umfjöllun í bókinni
Maðurinn sem unni tölum einum er Ronald Graham. Og er það sannarlega verðskuld-
að. Graham var Erdös sem besti sonur á síðari hluta ævi hans og hélt yfir honum
veraldlegum hlífiskildi auk þess að deila með honum ofurást á stærðfræðinni.
Doktorsritgerð Grahams fjallaði um einingarbrot Egifta (sjá umfjöllun um þau í
Inngangi) en síðar átti fyrir honum að liggja að starfa á sviði talningarfræði. Hann
hlýtur að teljast nokkuð óvenjulegur stærðfræðingur því hann er liðtækur fimleika-
maður og vann meira að segja fyrir sér í fjölleikahúsi á námsárum sínum. Paul
Hoffman gerir Ronald Graham ljóslifandi skil í bók sinni og lesandinn sér hinn
virta stærðfræðing fyrir sér sýna listir sínar í boltaleik og stökkva heljarstökk á
fjaðradýnu undir flóðljósum fjölleikahúss, en einnig þreyta kapphlaup við Paul
Erdös upp stigagang í margra hæða háskólabyggingu og mæla árangurinn með
skeiðklukku.
6 Málsvörti stærðfræðings G.H. Hardy. Útg. Hið íslenzka bókmenntafélag (Lærdómsrit Bókmenntafélagsins) 1972.
Reynir Axelsson (þýð.).
176