Uppeldi og menntun - 01.01.2000, Blaðsíða 151
SIGURÐUR KRISTINSSON
fagmennska er, því að samkvæmt (iv) skiljum við ekki markmið starfsgreinanáms
nema við skiljum hvað fagmennska felur í sér.
Aður en við víkjum nánar að fagmennskunni er rétt að gera eina athugasemd
við skilgreiningu (iv). Skilgreiningin setur fagmennsku fram sem nauðsynlegt og
nægilegt skilyrði starfsmenntunar. Þetta virðist fela í sér að annaðhvort hafi mann-
eskja viðkomandi hæfileika eða ekki. En í raun getur fólk haft fagmennskuhæfileik-
ana að mismunandi marki og í ólíkri blöndu. Þess vegna væri nær að segja:
(v) Manneskja hefur starfsmenntun að því marki sem hún hefur þá hæfi-
leika sem fagmennska á viðkomandi starfssviði samanstendur af.
Samkvæmt (v) er hægt að ræða um fagmennsku í mismiklum mæli eða á misháu
stigi. En hvar eru þá neðri mörkin? Hvenær er einstaklingur orðinn fagmaður? Ef
við hugsum okkur ferlið frá því að hann hefur litla sem enga af þeim hæfileikum
sem um ræðir og þangað til hann hefur þá í ríkurn mæli, er hægt að benda á ein-
hvern ákveðinn stað og segja „þarna varð hann að fagmanni!"? Svo virðist ekki
vera, ekki frekar en hægt er að benda á tiltekinn stað í þroskaferli sem hefst með því
að trjáfræ grefst í moldu og lýkur á því að til er fullvaxið tré. Hvergi er hægt að
benda á þá töfrastund þegar viðfang ferlisins var allt í einu orðið að tré. Stundum
dregur fólk þá ályktun af svona dæmum að það sé enginn raunverulegur munur á
þessu tvenns konar ástandi, t.d. að vera fræ eða tré. En þá gerir það sig sekt um
rökvillu, svonefnda markalínuvillu.4 Við vitum öll að það er munur á því að vera
sköllóttur og ekki sköllóttur, enda þótt sumir séu þannig hærðir að þeir eru í raun
hvorki sköllóttir né ekki sköllóttir og myndu svo sannarlega hvorki verða meira né
minna sköllóttir þótt þeir hefðu einu hárinu fleira eða færra á höfðinu. Jaðarmörk
raunverulegra tegunda eru oft í eðli sínu óljós - ekki óljós vegna þess að skynfæri
okkar eru ófullkomin, heldur óljós í eðli sínu. Mér sýnist að fagmennska sé einmitt
slík tegund. Við vitum að það er munur á því að vera fagmaður og ekki fagmaður,
enda þótt sumir hafi slíka blöndu af hæfileikum að þeir eru í raun hvorki fagmenn
né ekki fagmenn og myndu ekki verða meiri eða minni fagmenn þótt þeir hefðu
einum þekkingarmolanum eða kunnáttubrotinu fleira eða færra.
Sé þetta rétt ætti starfsgreinanám að hafa það markmið að koma nemandanum
upp fyrir „gráa svæðið" ef svo má segja; þ.e. markmiðið ætti að vera að nemandinn
hafi nægilega hæfileika til að vera raunveruleg fagmanneskja. Síðan má halda
áfram með líkinguna við skallann og benda á að sumir eru sköllóttir án þess að vera
nauðasköllóttir og sumir hærðir án þess að hafa sítt og þykkt hár. Á sama hátt er
hægt að vera fagmanneskja án þess að vera frábær fagmanneskja og líka án þess að
vera sérhæfð fagmanneskja. Þetta má svo e.t.v. tengja markmiðum með grunnnámi
annars vegar og framhaldsnámi hins vegar.
Með þennan skilning á starfsmenntun í farteskinu er kominn tími til að spyrja
hvers konar eiginleikar það séu sem einkenni fagmanneskju með eiginlega starfs-
menntun.
4 Sjá t.d. Brooke Noel Moore og Richard Parker, Critical Thitlking, 6. útgáfa, Mayfield 2000, s. 186-187
149