Uppeldi og menntun - 01.09.1993, Síða 12
FRÁ KRISTINSDÓMSLESTRI TIL MÓÐURMÁLS
lifað hafa á síðustu öldum, og kunna utanbókar nokkur íslenzk kvæði, helst ætt-
jarðarljóð og söguleg kvæði, og geta skýrt rjett frá efni peirra íóbundnu máli.
Ekki verður sagt að heitið „móðurmál" komi hér fram í mjög skýrri merkingu. Það
afmarkar hér frekast námssvið sem nær yfir lestur (byrjendakennslu og lestrar-
þjálfun), þjálfun í munnlegri og skriflegri tjáningu, svo og nokkra þekkingu á sögu
og bókmenntum föðurlandsins. Eftirtektarvert er að í 2. tl. þessarar lagagreinar er
skriftarnám talið sér á parti. Þetta sýnir að heitið „móðurmál" var notað á þessum
tíma á nokkuð annan veg en nú tíðkast; í núgildandi námskrá telst t.d. hvers konar
ritun til íslensku/móðurmáls (Aðalnámskrá grunnskóla 1989:61-67).
Þær hugmyndir um móðurmálskennslu sem lýsa sér í lögunum 1907 höfðu
verið alllengi í gerjun. Með vaxandi skólahaldi á síðasta fjórðungi 19. aldar var farið
að kenna undir hatti „lestrar" og „skriftar" fleiri þætti móðurmáls en áður hafði
viðgengist, t.d. svolitla málfræði í sumum föstum barnaskólum og réttritun mjög
víða þar sem barnafræðsla var á annað borð styrkt af opinberu fé. í umræðum
manna um alþýðufræðslu um aldamótin fór hugtakið „móðurmál" að mótast og
skýrast. Gleggst kemur þetta fram hjá Guðmundi Finnbogasyni, höfuðsmið
fræðslulaganna 1907.
Hér verður fjallað einvörðungu um lestrarþátt móðurmálsins, nánar tiltekið um
tengsl lestrarþjálfunar og lestrarefnis.1 Ætlunin er að bregða ljósi yfir hugmynda-
fræðilegan bakgrunn fræðslulaganna að þessu leyti, svo og fylgifiska þeirra hvað
varðar framleiðslu texta til lestrarþjálfunar barna í skyldunámi. I þessu sambandi
verður fjallað sérstaklega um fyrstu lestrarbækur handa börnum og unglingum sem
út komu hér á landi, einkum með hliðsjón af þróun lestrarbóka í Danmörku og
Noregi á 19. öld. Þá verður kannað sérstaklega hvers konar efni var helst notað til
lestrarþjálfunar um aldamótin og hvaða breytingar fylgdu að þessu leyti í kjölfar
fræðslulaganna 1907. Að lokum verður ályktað nokkuð um uppeldisleg áhrif þess-
ara breytinga.
NÁMSKRÁ OG MENNINGARBREYTINGAR
Lengi framan af vöktu breytingar á formi skólastarfs meiri athygli skólasögu-
rýnenda heldur en þær breytingar sem orðið hafa á námskrá og námsefni (curricu-
lum) - inntaki náms og kennslu. I þessu sambandi er táknrænt að í yfirlitsriti sínu
ræðir Gunnar M. Magnúss ekki um tilkomu móðurmáls sem námsgreinar að öðru
leyti en því er varðar kennslu í stafsetningu og skiptar skoðanir á stafsetningarregl-
um (Gunnar M. Magnúss 1939:180-203).
Það eru raunar varla meira en þrír áratugir síðan menn tóku að nokkru marki að
greina breytingar á námskrá og kennslugögnum (curriculum change) í ljósi al-
mennrar þjóðfélags- og menningarþróunar. Varla er það tilviljun að þetta gerðist
um svipað leyti og gagngerar skólaumbætur hófust í vestrænum þjóðfélögum, ekki
1 Ég leiði hjá mér þá spurningu hver hafi verið hlutur eiginlegrar bókmenntakennslu í „móðurmálinu", við
hliðina á lestri og réttritun. Að þessu víkur Eysteinn Þorvaldsson 1992:18-19.
10