Uppeldi og menntun - 01.09.1993, Page 67
GERÐUR G. ÓSKARSDÓTTIR
inu. Athyglisvert er að hæstu einkunnir í námsferilshópum 3 (eru enn í námi) og 4
(hafa lokið námi) voru í hópi barna best menntuðu feðranna (sjá töflu 2) en þar var
búist við lægstu einkunnunum. Það var að vísu reyndin í hópum 1 (hafa ekkert
framhaldsnám) og 2 (hættu eftir tvö ár eða fyrr). Freistandi er að tengja einkunnir
og menntun föður við hvatningu, sbr. það sem sagt var hér að framan. Niðurstöður
benda til að nota megi útkomu á samræmdum prófum ásamt öðrum breytum, þar á
meðal menntun foreldra og búsetu, til þess að skýra brottfall og námsgengi.
Nemendur sem detta úr skóla eyða tíma og fé í skólagöngu sem óvíst er hvort
verður þeim að gagni. Úrtakið sem hér var til skoðunar var úr þýði á stærð við
stærstu framhaldsskóla hér á landi. Námsferilshópar 2 og 3 (sjá töflu 1) voru um
helmingur úrtaksins. Þessi hópur einn sér er á stærð við nokkuð stóran framhalds-
skóla. Spurningar vakna um það hverju skólavistin skilaði þessum nemendum og
samfélaginu. Með hvaða veganesti úr skóla fara þeir út í atvinnulífið? Var unnt að
nýta tíma og fé betur? Skiptir máli fyrir sjálfstraust og sjálfsvitund fólks að hafa
lokið ákveðinni námsleið í framhaldsskóla?
Gjörbreyting þarf að verða á framhaldsskólanum ef við viljum ná því marki að
allir nemendur eigi kost á starfsmenntun (í framhaldsskóla eða háskóla) að loknum
grunnskóla. Af þeim niðurstöðum sem hér hefur verið greint frá er ljóst að náms-
ferill tengist vellíðan í skóla. Hvatning og afstaða foreldra til náms skiptir einnig
máli: þeir sem ekki fá hvatningu úr foreldrahúsum þurfa að fá hana annars staðar.
Aðstaða til náms skiptir einnig máli. Stofnun fjölbrautaskólanna úti um allt land jók
til muna tækifæri fólks til náms en þeim hefur ekki tekist að jafna þau að fullu.
Búseta skerðir enn möguleika fólks til framhaldsnáms. Hér fæst staðfest nokkuð
afdráttarlaust að þeir þættir sem einkum mætti búast við að hefðu áhrif á skóla-
göngu þeirra sem helst þurfa stuðning eru einmitt mikilvægir skýringarþættir á
brottfalli úr skóla. Að sjálfsögðu þarf að taka tillit til þeirra við breytingar á skóla-
haldi. Breytingar á skipan framhaldsskólans geta verið með ýmsum hætti. I ljósi
þess sem hér hefur verið sagt er lögð áhersla á breytingar á eftirtöldum þremur
meginþáttum í starfi framhaldsskóla. I fyrsta lagi þarf að sinna nemendum í brott-
fallshættu með skilvirkri umsjón og leiðsögn og skipuleggja nám þeirra af mikilli
vandvirkni til að koma í veg fyrir að þeir sitji aðgerðalitlir árum saman, í raun að
bíða eftir að geta hætt í skóla. Þetta á að sjálfsögðu einnig við um grunnskólanámið.
Hvatning til að standa sig vel í námi getur komið frá skóla og atvinnulífi jafnt sem
foreldrum. I öðru lagi þarf að auka upplýsingamiðlun til nemenda og námsráðgjöf
til þess að stuðla að því að þeir taki ákvörðun að vel athuguðu máli um val á milli
mismunandi námsleiða á framhaldsstigi og framtíðarstarfa. Mikilvægt er að nem-
endur átti sig á þeim möguleikum sem eru á því að flytja sig á milli skóla, tengja
saman nám og starfsreynslu og skipuleggja samfelldan námsferil þótt hann sé ekki
allur innan sömu stofnunar. Nemendur, sem að öllu jöfnu velja að stunda fram-
haldsnám í heimabyggð, gætu e.t.v. vel hugsað sér að stunda hluta námsins (t.d.
eina til þrjár annir) annars staðar ef um heildstætt nám væri að ræða. Síðast en ekki
síst þarf námsframboð að breytast og verða fjölbreyttara bæði að lengd og inntaki.
Aherslan þarf að vera á starfsmenntun jafnt sem bóknám. Framhaldsskólinn verður
65