Árbók Háskóla Íslands - 01.01.1958, Blaðsíða 6
4
er látizt höfðu á því háskólaári. Tveir þeirra, dr. Einar Arnórs-
son og Jón Hjaltalín Sigurðsson, hófu starf sitt hér við sjálfa
stofnun háskólans. Báðir urðu aldraðir menn og luku miklu
ævistarfi í þágu háskólans og þjóðarinnar, svo sem öllum er
kunnugt. En hinn þriðji, dr. Jóhann Sæmundsson, var enn
ungur að aldri, maður sem miklar vonir voru við tengdar,
ef honum hefði orðið lengra aldurs auðið. Á þessu ári hefir
háskólinn enn átt á bak að sjá ungum manni úr hópi starfs-
manna sinna, dr. Jóni Jóhannessyni, er andaðizt 4. maí, að-
eins 48 ára að aldri. Dr. Jón Jóhannesson var fortakslaust
einn hinn fremsti fræðimaður um sögu íslands sem þjóð vor
hefir eignazt um langt árabil, enda fór hér saman víðtæk og
traust þekking, mikil elja, skörp dómgreind, vandvirkni og
sannleiksást. Hann var gæddur góðum hæfileikum til kennslu,
vel orði farinn í ræðu og riti, samvinnuþýður og ljúfur í við-
kynningu, enda hvarvetna vinsæll og mikils metinn. Hefir
háskóli vor og íslenzk fræði yfirleitt beðið þungt áfall við
andlát slíks manns.
Eins og kunnugt er voru sett ný lög um háskólann á síðast
liðnu vori. Lagasetning þessi átti sér langan aðdraganda, enda
mikilli vinnu varið til þess að undirbúa hana. Á fundi há-
skólaráðsins, 18. des. 1953, var samþykkt að kjósa nefnd til
þess að athuga tillögur til breytinga á reglugerð háskólans,
er þá höfðu fram komið frá nokkrum háskóladeildum. En
jafnframt var nefndinni falið að íhuga, hverjar breytingar
á háskólalögunum væri æskilegar. 1 nefndina voru kosnir
þessir menn úr hópi háskólakennara: Próf. Björn Magnússon,
próf. Júlíus Sigurjónsson, próf. Ármann Snævarr, próf. Þor-
kell Jóhannesson og próf. Leifur Ásgeirsson. Nefndin varð
skjótlega á því máli, að endurskoða þyrfti háskólalögin í heild
sinni. Lögin voru frá árinu 1936, eða nær 20 ára gömul, en
á þessum tíma höfðu ýmsar breytingar á þeim gerðar verið
með sérstökum lögum. Skyldi nú fara rækilega yfir þetta
efni allt og öll lagaákvæði um háskólann felld í eina heild,
með þeim breytingum og viðaukum, sem þurfa þætti. Nefndin
vann allmikið að verki þessu fram undir vor 1954, en næsta