Árbók Háskóla Íslands - 01.01.1958, Blaðsíða 16
14
við að neinn stúdent óski eftir þeim forréttindum að mega
ganga um götur bæjarins með spjót í hendi eða sverð við hlið,
ef þeim réttindum fylgdi sú áhætta að þurfa að verja hend-
ur sínar fyrir illvígum árásarmönnum við næsta götuhorn.
Sem betur fer þarf ekki lengur á slíku að halda. En háskól-
inn býður ykkur hins vegar aðstöðu til þess að geta stundað
í næði og friði þau fræði, sem þið hafið valið ykkur að við-
fangsefni. Ég skal játa það, að sú aðstaða er í sumum grein-
um ekki eins ákjósanleg og vera ætti. Á ég hér fyrst og fremst
við bókakost og margvísleg tæki, sem æskilegt væri að hafa,
jafnvel nauðsynlegt. Þið, sem hingað komið í dag, eigið þó um
margt að ólíkt betra að hverfa en ég og mínir námsfélagar,
sem lukum prófi úr háskólanum fyrir réttum 30 árum. Ýmsu
hefir þokað fram til bóta og enn verður stefnt í þá átt. Það
er ágætt að mega staldra ögn við og virða fyrir sér árangur-
inn af starfi sínu. En gæta skyldi menn þess að þeim er naum-
ur tími mældur og ný verkefni kalla að jafnskjótt og hverj-
um áfanga er náð. Við íslendingar eigum því láni að fagna að
vera ung og vaxandi þjóð í stóru landi, sem við höfum hvergi
nærri numið enn til hálfs. Miklu hefir þokað til betra horfs
síðustu 10—20 árin. En sá árangur er hverfandi hjá því sem
ógert bíður. Alls staðar blasa við ný tækifæri, ný verkefni,
nýir möguleikar. Hér er ekki tóm til langrar viðstöðu, því að
framtíðin kallar á krafta okkar til nýrra átaka. Þessi svip-
mynd af þjóðlífi voru í dag á fullkomlega við það starf, sem
ykkar bíður hér í háskólanum hin næstu ár. Nóg er að vinna,
hvert verkefnið tekur við af öðru. Námið sjálft krefur mikillar
og skipulegrar vinnu. Hingað eruð þið komin til þess að búa
ykkur undir ævistarf ykkar, hvert á sínu sviði og það, hversu
ykkur farnast á ókomnum árum, er að ekki litlu leyti undir
því komið, hversu trúlega þið hafið vandað til verka ykkar
hér. En hér er meira í efni. Háskólaárin eru ykkur þroskatími.
Héðan farið þið eftir 5—6 ár sem fullþroskað fólk. Tími ykk-
ar hér í samvist með kennurum og í hópi námsfélaga á ekki
aðeins að færa ykkur nauðsynlegan lærdóm, heldur líka mennt-
un, andlegan og líkamlegan þroska. Notið þennan tíma vel, því