Árbók Háskóla Íslands - 01.01.1958, Blaðsíða 135
133
Tilhögun hátíðahaldanna var sem hér segir:
Kl. 11 f. h. hófst guðsþjónusta í kapellu háskólans. Síra Harald
Sigmar prédikaði, en síra Magnús Runólfsson þjónaði fyrir altari.
Kristilegt stúdentafélag sá um guðsþjónustuna.
Kl. 13.30 flutti dr. Sigurður Nordal prófessor ræðu úr útvarpssal.
Kl. 15.30 hófst samkoma í hátíðasal háskólans. Þar flutti formaður
stúdentaráðs ávarp, en ræður fluttu: Síra Jón Auðuns dómprófastur,
Valgarð Thoroddsen verkfræðingur og Tómas Helgason læknir flutti
ræðu eftir dr. Helga Tómasson yfirlækni, en hann veiktist skyndi-
lega stuttu áður. Ennfremur var fyrirhugað, að leikinn væri einleik-
ur á píanó, en píanóleikarinn veiktist þremur stundarfjórðungum
áður en samkoman hófst. Ýmislegt fór því öðruvísi en ætlað var um
samkomu þessa. Það sem þó setti mestan svip á samkomuna var,
hve fámenn hún var. Sýnist ekki annað ráð en leggja þessa sam-
komu niður. Stúdentar geta ekki boðið viðurkenndustu ræðu- og
menntamönnum þjóðarinnar að tala yfir næstum tómum bekkjum
auk þess sem óviðkunnanlegt er, að þeir fáu, sem samkomu þessa
sækja, séu sérstaklega til hennar boðnir eins og forseti íslands, sem
jafnan heiðrar samkomu þessa með nærveru sinni, menntamálaráð-
herra og rektor háskólans. Ef óhjákvæmilegt reynist að leggja þennan
lið hátíðarinnar niður, er mikill svipur farinn af hátíðahöldunum
og fátt annað eftir en dansleikurinn. Er það okkur stúdentum til
lítils sóma.
Ræðum öllum var útvarpað og dregur það eðlilega mjög úr aðsókn
að samkomunni. Ræðurnar vöktu allar þjóðarathygli.
Kl. 18.30 hófst fullveldisfagnaður að Hótel Borg. Var þar mikill
fjöldi gesta, og meðal þeirra forsetahjónin, herra Ásgeir Ásgeirsson
og frú Dóra Þórhallsdóttir. Auk þess rektor og frú hans og flestir
háskólaráðsmenn.
Prófessor Theódór B. Líndal flutti ræðu, Lárus Pálsson leikari
skemmti og Guðmundur Guðjónsson söng einsöng. Að lokum var
dansað fram eftir nóttu.
Stúdentaráð gaf að venju út hátíðablað af Stúdentablaði 1. des.
Verður þess nánar getið á öðrum stað hér.
2) Áramótafagnaður var haldinn að Hótel Borg á gamlárskvöld.
Var sú skemmtun haldin ásamt Stúdentafélagi Reykjavíkur. Stóð
fagnaðurinn fram undir morgun og þótti takast vel.
3) Sumarfagnaður var haldinn að Hótel Borg síðasta vetrardag.
Árni Björnsson stud. mag. fagnaði sumri og Karlakór háskólastúdenta
söng undir stjórn dr. Hallgríms Helgasonar og var það í fyrsta skipt-
ið, sem kórinn kom fram. Hann kom fram í útvarpsdagskrá stúd-
entaráðs sama kvöld.