Hugur - 01.01.1994, Qupperneq 12
10
Ágúst Hjörtur Ingþórsson
HUGUR
Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar þá hefur lítt verið um kenningu
hans skrifað.2
Sama afskiptaleysið á einnig við um réttlætisumræðuna almennt.
Þrátt fyrir nokkur tilþrif einstaka fræðinga úr stjórnmálum, hagfræði
og heimspeki, er vart hægt að segja að réttlætisumræðan hafi náð því
flugi hér á landi sem æskilegt væri. Ein afleiðing þessa skeytingar-
leysis um réttlætismál er sú að nú gerist það hvað eftir annað að
alþjóðlegir dómstólar og stofnanir setja ofan í við fslensk stjórnvöld
eða knýja okkur, í Ijósi þeirra samþykkta sem Islendingar eru aðilar
að, til að breyta lögum, reglugerðum og verklagi. Mikil er sú skömm
og hneisa þjóðarinnar að það skuli hafa tekið margra ára málarekstur
einstaklings og loks alþjóðlegan dómstól til að knýja íslensk
stjórnvöld til að virða í verki þann hornstein fulltrúalýðræðis sem er
þrígreining valdsins. Og vantar þó verulega á aðgreiningu og skýra
verkaskiptingu löggjafarvalds og framkvæmdavalds. Þá er sú hneisa
ekki minni að Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna skuli hafa séð
ástæðu til að setja ofan í við Islendinga um margvísleg atriði er lúta að
mannréttindum og lýsa yfir áhyggjum sínum vegna þess að á ótal
sviðum skorti formlega vernd mannréttinda.
Ástæðan fyrir því að ég vek máls á þessu er sú að mér er afar
hugleikið starfssvið stjórnmálaheimspekinnar og velti stundum fyrir
mér tilganginum með margháttaðri viðleitni okkar heimspekilega
þenkjandi fólks. Á þessu sviði réttlætis og mannréttinda sé ég ekki
betur en verk sé að vinna. En hvers er rétt og raunhæft að vænta af
stjórnmáiaheimspekinni?
Wayne Norman heldur fram hógværum væntingum í þeirri grein
sem birtist hér í heftinu. Og hann hefur sannfærandi rök fyrir þvf
2 Þorsteinn Gylfason birti kenningu sína í langri grein sem ber heitið „Hvað er
réttlæti?" Skimir 158. ár (1984), s. 159-222. Eyjólfur Kjalar birti andmæli sín í
Tímariti Máls og menningar , „Verðleikar og sannleikur" 46. árg. (1985), s. 232-
240. I því hefti er einnig að finna svar Þorsteins við þessari gagnrýni í grein sem
heitir „Sannleikurinn og h'fið“ s. 241-250. Gagnrýni Hannesar Hólmsteins er að
finna í „Um réttlætishugtök Hayeks og Nozicks", Skírnir, 160. ár (1986), s. 231 -
281. Grein Hannesar er þó frekar varnarræða fyrir kenningar þeirra Hayeks og
Nozicks en bein gagnrýni á kenningu Þorsteins, enda hefur Þorsteinn ekki svarað
henni. Sjá einnig grein Vilhjálms Árnasonar, „Réttlæti og trúarsannindi, eða
Vegurinn, sannleikurinn og lífið“, Tímarit Máls og menningar, 47. árg. (1986), s.
376-382.