Hugur - 01.01.1994, Page 92
90
Þorsteinn Gylfason
HUGUR
málstofu í Háskóla íslands og rökræddi það þráfaldlega við starfs-
systkin mín vestan hafs og austan. Ég hef aldrei náð sómasamlegum
tökum á því, og það hefur enginn annar heimspekingur heldur svo að
ég viti. Þær tilgátur um viljann sem hér standa — að hann kreíjist í
fyrra lagi valds og í síðara lagi siðferðis — eru aðeins tilhlaup. Önnur
styðst við einfalda merkingargreiningu, hin við greiningu
Aristótelesar á breyskleika. Ur báðum þarf að vinna miklu betur en
hér er gert. Ég held ég trúi því enn að það væri ómaksins vert.
Kaflinn um vald er það eina úr lestrinum sem ég hef notað annars
staðar. Ég gerði úr honum sjálfstæða hugleiðingu, jók hann mikið og
birti sem langa ritgerð. Að því loknu virðist ég hafa fargað afgang-
inum af lestrinum sem hverju öðru uppkasti. Ritgerðin heitir
„Valdsorðaskak" og er prentuð í Afmœliskveðju til Tómasar Guð-
mundssonar 1981. Þar eru andmælin gegn siðfræðilegri tvihyggju
miklu vandlegri en í „Að gera og að vera“, auk þess sem rökræðan er
sett í mun víðara samhengi.
Þess ber líka að geta að í bók minni Tilraun um heiminn er íjallað
nokkuð um breyskleika, og er sú umfjöllun allt öðruvísi en sú sem hér
stendur. En þegar ég samdi bókina mundi ég ekki eftir „Að gera og að
vera“ eins og fram er komið. Ef ég hefði munað eftir lestrinum hefði
ég áreiðanlega tekið tillit til hans í bókinni. í lestrinum er breyskleiki
fyrst og fremst siðferðisbrestur (í skilningi dygðafræðinnar), í bókinni
er hann fyrst og fremst skynsemisbrestur (í skilningi ákvörðunar-
fræðinnar). Og mér virðist það góð og gagnleg spurning hvort þessi
tvö sjónarmið séu samrýmanleg eða ósamrýmanleg. Þess utan kynni
siðferðissjónarmiðið að breyta einhverju um hugmyndir mínar í
bókinni um skýringar á breyskieika.
Athugasemdirnar um stjórnmál í „Að gera og að vera“ eiga ekki
skilið að heita stjórnmálaheimspeki. Þær þjóna einkum þeim tilgangi
að vekja athygli á nytjastefnuþættinum — eða hentistefnuþættinum
eins og ég hefði líka getað sagt — í hvers konar stjórnmálum á okkar
dögum. Eiginleg og alvarleg stjórnmálaheimspeki er allt annars eðlis
en þessar athugasemdir. Ég hef reynt að glfma við hana í „Hvað er
réttlæti?“ í Skírni 1984 og í köflunum „Á meirihlutinn að ráða?“ og
„Skiptir réttlæti máli?“ í Tilraun um heiminn.