Hugur - 01.06.2004, Page 250
248
Jón Olafsson
Styrkleiki þessarar greinar felst í ágætri greiningu á þeim hugtökum sem
Kristjáni eru hugleiknust, með stórmennskuna í miðpunkti að sjálfsögðu.
Efasemdir hljóta hinsvegar að vakna þegar hann reynir að setja þá greiningu
í pólitískt og uppeldislegt samhengi. Kannski má segja svipað um Kristján
og Martha Nussbaum segir á einum stað um Nietzsche: A meðan hann
heldur sig við siðferðilega sálarfræði í þröngum skilningi er áhugavert að
fylgjast með honum. En draumurinn breytist í martröð þegar hann ætlar að
fara að beita niðurstöðum sínum á hagnýt og hversdagleg efni. Mér virðast
stórmennskuhugmyndir eiga álíka lítið erindi í pólitík og kynórar í kaþólsk-
um prestskap.
En þetta er flókið efni sem þó höfðar furðu sterkt til íslenskra heimspek-
inga því að nú hefur Róbert Haraldsson svarað Kristjáni á sama vettvangi
(iSkírnir vor 2004) um stórmennsku og þar virðist margt gefa tilefni til rök-
ræðna þeirra Kristjáns um þetta efni. Hér er því best að láta staðar numið um
stórmennsku.
Eg sagði í upphafi að póstmódernismi væri ekki síður meginefni bókarinnar
en siðfræði. „Tíðarandi í aldarlok", tíu greina flokkur Kristjáns ffá haustinu
1997, er upphafið að gagnrýni hans á póstmódernisma sem hefur leitt af sér
talsverðar ritdeilur síðan. Það er að sumu leyti fróðlegt að renna í gegnum þess-
ar deilur aftur - eða öllu heldur í gegnum hlut Kristjáns í þeim. Það sem slær
mig er tvennt: I fyrsta lagi hitinn í málflutningi Kristjáns. I greinaflokki hans
eru mikil stóryrði um póstmódernisma og póstmódernista. Staðhæfingar
þeirra og niðurstöður kallar Kristján iðulega firrur, hann segir póstmódernisma
hafa „saurgað“ ímynd femínisma, hann fullyrðir að það sem þekktir heimspek-
ingar á borð við Derrida segja um heimspeki, jafnvel eigin heimspeki sé
„óskiljanlegt blaður“ og svo má áfram telja (t.d. 213,216). I öðru lagi alhœfing-
ar hans um póstmódernisma og póstmódernista, en hann virðist líta svo á að
það sé engum vandkvæðum bundið að vísa til póstmódernista almennt eins og
þeir séu samstæður hópur manna með kenningu sem bæði er hægt að þekkja
af einstökum verkum og staðhæfingum og sem leiðir af sér tiltekna sýn á list-
ir, fræði, stjórnmál og mannlegt samfélag. Sú einföldun sem hér er á ferðinni
veldur því að skrif Kristjáns eru stundum strákslega gróf, stundum allt að því
einfeldningsleg. Eðlilegast væri, úr því að Kristján telur skrif sín um póst-
módernisma til heimspekilegrar blaðamennsku, að taka hann á orðinu og
komast að þeirri niðurstöðu að heimspekileg blaðamennska hans sé þá ákveð-
in tegund æsiblaðamennsku. Kannski eru heimspekileg markmið Kristjáns
með þessum skrifum einmitt sambærileg við markmið æsiblaðamannsins.
Hann vill búa til sögu um póstmódernismann, hneykslanlega sögu, sem kallar
firam hjá lesandanum ákafa andúð á því sem hinn heimspekilegi æsiblaðamað-
ur lýsir. Þessu markmiði nær Kristján vafalaust með marga lesendur sína. Það
svarar hinsvegar ekki spurningunni um hvort markmið sem þessi séu líkleg til
að geta af sér áhugaverða umfjöllun. Græðir maður eitthvað á því að lesa það
sem Kristján hefur skrifað um póstmódernisma? Er maður fróðari? Er eitthvað
sem maður skilur betur? Um þetta hef ég talsverðar efasemdir.