Hugur - 01.06.2004, Blaðsíða 238
236
Armann Halldórsson
sömu ástæðu liggur málatilbúnaður að hætti McCumbers vel við árásum
þeirra sem hafa aðra sýn á málin.
Sú heimspeki sem hefur sterkasta stöðu í Bandaríkjum samtímans er rök-
greiningarheimspeki af ýmsu tagi. Rökgreiningarheimspekin hefiir verið í
þessari stöðu síðan í lok sjötta áratugarins. McCumber sýnir hvernig þetta
endurspeglast að einhverju leyti í þeirri breytingu sem varð á ávörpum for-
seta Félags bandarískra heimspekinga (American Philosophical Association).
Arið 1950 flutti Arthur E. Murphy ávarp sem hann nefndi „The Common
Good“ (almannaheill) þar sem hann dregur upp nokkuð dökka mynd af
samtímanum og kallar eftir heimspeki sem geti vísað mönnum veginn í
þessari erfiðu stöðu.2 Rúmum áratug síðar eða 1961 hefiir svo orðið bylting-
arkennd breyting á efni þessara ávarpa. Þau eru nú orðin tæknilegar greinar-
gerðir um afmörkuð viðfangsefni en snerta ekki stöðu greinarinnar í heild og
tengsl hennar við þjóðfélagsmáhn.3 Þessi umskipti endurspegla kjarnann í
gagnrýni McCumbers á rökgreiningarheimspeki: hún yfirvegar hvorki sjálfa
sig né sögu sína: „Þögn heimspekinga undanfarið varðandi heimspekina
sjálfa er til marks um að þeir hafi gefið upp á bátinn hlutverk sem lá í kjarna
starfs þeirra í tvö þúsund ár [...] þ.e. að leita gagnrýnins, yfirvegaðs sjálfs-
skilnings."4 5 Þessi skortur á söguskilningi felur í sér byltingu að mati
McCumbers. Við þessa breytingu glati heimspekin hluta af eðli sínu, hluta
þess sem gerði hana að því sem hún var.3
Hann greinir svo ákveðnar sögulegar rætur þess að heimspekin leiti í
þennan farveg með því að benda á að stjórnkerfi Bandaríkjanna sé byggt á
ákveðnum heimspekilegum forsendum og að í vissum skilningi sé það mik-
ilvægt fyrir viðgang þess kerfis að heimspekilegar forsendur þess séu ekki
rannsakaðar, að heimspekisögunni ljúki á eins konar hápunkti með ritun
stjórnarskrár Bandaríkjanna. Hliðstætt þessu bendir hann á að sterk hefð
púrítanisma í Bandaríkjunum, sem byggir á mjög skýrum reglum um hvað
sé leyfilegt og hvað ekki, einkum í kynferðismálum, sé einnig fyrirferðamik-
il í andans málum. Þannig leyfist ekki kynlíf utan hjónasængurinnar, og eng-
in hugsun utan þess ramma sem markaður er af stjórnarskránni og klerkum
mótmælenda. Hugsun heimspekinga eigi það til að fara út á alls kyns vafa-
samar brautir og því felist í henni sérstök ógn við ríkjandi stöðu mála.6
Lýsing McCumbers á stöðu heimspekinnar í dag er sláandi. Hann líkir
heimspekinni við fjölskyldu sem hefiir orðið fyrir miklu áfalli en neitar að
2 McCumber, 4.
3 Sama rit, 5.
4 Sama rit, 10. Á ensku hljómar þetta svo: „The recent silence of philosophers concerning philosophy
itself thus amounts to the professional abandonment of what for over two millennia [...] was central
to them: that of seeking critical, reflective self-understanding“.
5 Annars konar gagnrýni á rökgreiningarheimspeki er að finna í athyglisverðri bók bandaríska heim-
spekingsins Bruce Wilshire, Fashionable Nihilism (Albany: State University of New York Press, 2002).
Wilshire telur að rökgreiningaraðferðin, sem hann rekur aftur til Descartes, sé í eðli sínu tómhyggja.
Þróun heimspeki sem atvinnugreinar sé skref í átt að eyðileggingu hennar sem lifandi afls í menning-
unni. Wilshire vill leita til hugsunar frumbyggja og setja spekina fram með allt öðrum hætti en tíðk-
ast í heimspekinni eins og við þekkjum hana.
6 Sama rit, 14-15.