Tímarit Máls og menningar - 01.12.1953, Qupperneq 80
190
TÍMARIT MÁLS OG MENNÍNGAR
tvær eða þrjár torfur vegna þess að vélarnar voru ýmist of máttlitlar
til að draga nótina út, eða stöðvuðust með öllu, þegar mest var í húfi,
t. d. í miðri snurpingu.
En þetta er því miður ekkert einsdæmi á síldveiðum Islendinga, og
í samanburði við ýmsa aðra höfðum við í rauninni litla ástæðu til að
kvarta undan tæknimenningunni í sumar. Okkar vélar komust brátt í
bezta lag, þar sem afturámóti sumir aðrir urðu að stríða við endur-
teknar bilanir allan veiðitímann, þar á meðal eitt gamalt og gott skip
sem eflaust liefði orðið með þeim aflahæstu, ef bátavélar þess hefðu
ekki brugðizt. Skipstjóri þess var mjög fundvís á síld; þann 29. júlí
var hann til dæmis einskipa alla nóttina í svörtum sjó, og er enginn
vafi að þar hafði hann tækifæri til að fylla skipið, sem tekur um 2500
mál. En það náðist ekki ein einasta síld um borð. Þeir köstuðu pokan-
um á höndunum og reyndu öll möguleg ráð önnur til að hjálpa vélun-
um, en allt kom fyrir ekki, þær höfðu ekki kraft til að draga nótina út.
Skipstjórinn fór í talstöðina og vísaði öðrum skipum á staðinn, og
mörg þeirra fengu þarna mestu veiði sumarsins, þ. á m. fengum við þar
500 mála kastið sem ég var að tala um áðan. En hinn ágæti skipstjóri,
sem hafði fundið alla þessa síld, hann hélt í land með tómt skip og
bilaðar bátavélar. Á örfáum klukkustundum hefði hann getað fengið
2500 mál og tunnur, en fékk aðeins 1800 mál og tunnur allt sumarið.
Ég tel rétt og sjálfsagt að ræða þetta opinberlega, enda þýðingar-
mikið mál, ekki einungis fyrir mennina á skipunum, heldur einnig fyr-
#ir þjóðina í heild. Maður, sem býr skip sitt svo illa á veiðar, að ólag á
mikilvægum tækjum aftrar því að verðmætanna sé aflað er þau bjóð-
ast, hann gerist í rauninni sekur um að kasta þessum verðmætum á glæ.
TJtgerðarmenn mundu áreiðanlega ekki taka því þegjandi ef sjómenn
reyndust algjörlega ófærir um að vinna þau verk sem þeir hafa ráðið
sig til; en þeir hafa líka skyldur að rækja við sjómennina, og sýnist
mér að útgerðarmaður, sem sendir skip sitt á veiðar með bilaðar vél-
ar í bátum, bregðist þessum skyldum, á sama hátt og sjómennirnir
mundu bregðast skyldum sínum við hann, ef þeir neituðu að draga
nótina þegar búið væri að kasta, segðust ekki hafa heilsu til þess, og
styngju höndum í vasana.