Tímarit Máls og menningar - 01.06.1966, Blaðsíða 7
22. apríl 1966
varð Snorri Hjartarson, skáld, sextugur
i
Komin af Kili, og eftir að hafa átt næturhvíld í tjaldi örskammt frá Eyvindarholu á
HveravöIIum, sátum við í kyrrð og sólarhita við Friðmundarvötn. Grasbrekkan, kögruð
lyngi og gul af dýjamosa niður við vatnið, sagði við okkur: Njótið nú hvíldarinnar sem
bezt, börnin mín, sumarið er stutt og sennilega komið þið hingað aldrei aftur.
En á þýfðu nesi, sem gekk út í vatnið skammt frá, mátti greina dimmgrænan lit í ljós-
grænum, svo sem oft verður þegar farg aldanna hefur þrýst lágum veggjum grjóts og
moldar til upphafs síns og grasið, blessað veri grasið, er eitt orðið til frásagnar um það
sem einu sinni var.
Og í kyrrðinni kom til mín kvæði, sem ég hafði lengi kunnað og unnað, ekki einasta
orðin sjálf:
Mig dreymir við hrunið heiðarsel:
heldur sjálfur andi þessa ljóðs, rósemd þess gagnvart tíma og rúmi:
-----Fuglinn sem flaug
framhjá er enn á sama stað.
II
Ilinar tvær bækur bundins máls eftir Snorra Hjartarson, — og í hvert sinn sem ég leita
til þeirra, eða mæti þeim af hendingu, þá fer mér sem jafnan áður: ég les það kvæði er
fyrir mér verður og snerting þess er svo hrein að ég veit ekki hvort ég geri rétt með því
að lesa þegar næsta kvæði og deyfa þannig áhrif hins lesna með nýjum, — nei, ekki
strax, ekki alveg strax.
Auðvitað er það jafnan fjarri öllu réttlæti að lesa lyrisk ljóð eins og verið sé að ná
sem bestum árangri í akkorðsvinnu, en varia veit ég nokkurt skáld, sem væri harðar og
ómaklegar leikið með slíkri meðferð af hálfu lesanda síns en Snorra Hjartarson.
Það varð Ijóst, þegar er Kvæði komu fyrir sjónir almennings, að þar fór sá höfundur
er aldrei og hvergi mundi bregðast lögmáli þeirrar listar, sem var hans og engan nndan-
slátt leyfa sér frá þeim kröfum sem hann gerði til sjálfs sín gagnvart þeirri list. Hver sá
er eitthvað veit um íslenzkar bókmenntir á síðari áratugum, veit svo ljóst þennan hlut að
ekki þarf um að ræða.
Hitt er svo annað mál, að það að gera grein fyrir því hvernig list eins manns, meðfædd
og áunnin, nær háu marki, og hvernig rekja má áhrif hennar útífrá á alla vegu, kemur
í hlnt meiri skírleiksmanna en þess er hér heldur á penna.
101