Tímarit Máls og menningar - 01.12.1970, Qupperneq 6
Tímarit Máls og menningar
Hvar stend ég nú, aumur maður? Einu sinni trúði ég í minni suðursveizku
hreinskilni og heiðarleika, að þessir menn yrðu hemill á glæpum peninga-
valdsins og frumkvöðlar alþjóðlegs bræðralags. En þess í stað stend ég
frammi fyrir þessum geunla ófullkomleika mannsins. Þó játa ég, að ástandið
í heiminum væri snöggtum verra, ef sósíalistísku öflin hefðu ekki komið til
sögunnar. Ég er ekki einstefnuakari. En ég er smeykur við, að peningavaldið
kysi heldur að tortíma sjálfu sér í atómbruna heldur en að eiga það á hættu að
lúta yfirráðum sósíalisma. Þess vegna hef ég ekki mikla von um, að atóm-
styrjöld verði afstýrt. Þarna liggur hundurinn grafinn.
Annað slysið, sem yíir jörð vorri vofir eru ísaldirnar, sem þrúgað hafa
hnöttinn hver eftir aðra svo langt aftur í tímann, sem fróðustu menn vita,
og allt þar til síðasta íshellan rann af Helghól í Suðursveit fyrir svona tíu
þúsund árum. Og máski verða ekki meira en nokkur hundruð eða nokkur
þúsund ár þar til jökull ryðst yfir Landmannalaugar og Reykvíkingar líta
skelfdum augum jökulfossa steypast fram af Esjunni og kæfa Oskjuhlíðina
og jafna við jörðu vort heillandi Beneventum, þar sem við höfðum lifað
fögur ástarævintýri. Þá verða þreytt skautahlaup milli Reykjavíkur og
Leith. Þá verður mikið atvinnuleysi á íslandi og mjólkurpotturinn kostar
miljón króna. Þá dregur nær endalokunum. Fólk flykkist unnvörpum úr land-
inu og leitar sér lífsbjargar í svertingjalöndum Afríku. Og þá mun margur
landinn lofsyngja í Hallgríms-Péturssonarstíl þá gullöld, þegar ríkisstjórn
viðreisnarinnar frægu stjórnaði landinu og gerði þó meira illt af sér en nokk-
ur önnur ríkisstjórn, sem verið hefur hér við völd allt frá landráðagetnaði
Gamla sáttmála.
ísaldirnar munu, því miður, eiga eftir að sækja okkur heim. En fólk hugsar
svo skammt, að það hefur engar áhyggjur af slysum, jafnvel þótt skipti
sköpum þjóðlanda, ef þau gerast ekki fyrr en eftir árþúsundir eða jafnvel
nokkur hundruð ára. Svo skammsýnt er mannlífið.
Fyrir einum fjórum tugum ára gluggaði ég af tilviljun í hugleiðingar get-
gátumanna um orsakir ísalda. Flest sveif það í lausu lofti, og ég var litlu nær.
Þá bar það til einn daginn, að ég varð samferða einum geðþekkum jarð-
fræðingi niður Bókhlöðustíginn. Þegar við erum komnir þangað niður í
götuna, þar sem ég sá Jón Ólafsson ritstjóra í fyrsta sinn, haustið 1906, ein-
mitt mánaðardaginn, sem Lúther festi upp sína frægu fortöpunarpunkta, þá
segi ég við jarðfræðinginn, án nokkurs keims af yfirlæti: „Nú hef ég gert
mér skiljanlegt af hverju ísaldirnar stafa. Geimvíddin, sem sól vor rásar í
gegnum, er ekki alls staðar jafnköld. Þegar hún fer í gegnum kaldari svæðin,
196