Tímarit Máls og menningar - 01.12.1970, Qupperneq 144
Tímaril Máls og menningar
mistekizt blaðaútgáfa, og að hann skuli þess heldur reyna að vera stórtækari
í útgáfustarfseminni en aðrir. Aftur á móti lýsir Jón Ólafsson því yfir, að
hann ætli ekki að biðjast afsökunar á útgáfu þessari, enda sé hún hafin með
fullu viti og frjálsræði og raunar segi gamli Balle í kverinu, að menn eigi
þá aðeins að biðjast afsökunar á gerðum sínum, að þær séu framkvæmdar
í hugsunarleysi, ógásemi eða bráðræði.
Þessu næst tekur ritstjórinn til við að rekja þær ástæður, er liggi útgáfu
Skuldar til grundvallar. Telur hann fyrst, að miðað við fólksfjölda í landinu
geti það vart talizt vera um of ætlað, þótt út séu gefin fimm blöð. Næsta
röksemd er sú, að úr því Austurland hafi nú loksins byijað að vakna til
menningarlegrar meðvitundar, þá heri því að standa sem sérstakur hluti
landsheildarinnar en ekki sem einhvers konar taglhnýtingur Norðlendinga-
fjórðungs. Virðast þessi ummæli geta verið sneið til Kristjáns amtmanns.
Þá telur Jón Ólafsson, að úr því Austurland hafi fengið sína eigin prent-
smiðju, og hana heldur fullkomnari að öllum búnaði en Akureyrarprentverk,
þá ætti að vera jafnhægt að gefa út eitt blað fyrir austan og tvö fyrir norðan,
enda séu blöðin hinn bezli umræðuvettvangur, sem þjóðin geti kosið sér.
I þessu sambandi ber að taka fram, að ég hef hvergi séð neina lýsingu á
útbúnaði Skuldarprentsmiðju og get því ekki lagt dóm á ummæli Jóns um
yfirburði hennar yfir Akureyrarprentsmiðjur.
Þessu næst kemur skýring ritstjórans á því, hvers vegna hann gefi út stærsta
blað á Islandi. Hún er sú, að auk umræðna um þjóðmál, fréttaflutnings og
skemmtiefnis vilji hann flytja í blaði sínu greinar, sem séu í senn menntandi
og aðgengilegar öllum almenningi. Ritstj órinn kveðst síðan vonast til að hafa
eitthvað lært á sínum fyrri blaðamennskuævintýrum og minnir að lokum á,
að þótt Skuld sé austfirzk, þá sé hún framar öllu íslenzk, enda vænti hann
kaupenda og stuðnings alls staðar að af landinu. Hins vegar vill hann ekki
láta hjá líða að minna Austfirðinga á þá skyldu þeirra að duga blaðinu bezt
allra landsmanna. í niðurlagi þessa heimanfylgjuávarps birtist svo kafli úr
hoðsbréfi því, sem Jón hafði sent frá Kaupmannahöfn veturinn áður.
Hið fyrsta tölublað Skuldar var 4 blaðsíður að stærð og flutti auk ávarps
ritstjórans tvö kvæði, annað eftir Jón Ólafsson sjálfan en hitt eftir Pál bróður
hans. Þá birtist í blaðinu grein um alþingiskosningar í Norður-Múlasýslu,
grein um gufuskipamálið o. fl.
Þar með hafði Skuld bælzt í hóp íslenzkra blaða, og er þá ekki úr vegi
að svipast lítillega um í íslenzka blaðaheiminum árið 1877.
334